Vængbrotnir Rauðir djöflar taka á móti Newcastle

Newcastle United lýkur viðburðaríku ári með leik á Old Trafford, heimavelli Manchester United. Leikurinn er annað kvöld og hefst klukkan 20:00.

Sigur fyrir Newcastle gæti gert áramótin góð og lagt grunn að farsælu 2025. Manchester United mun þó sækjast eftir því að bæta slakt gengi sitt og halda sínum ótrúlega árangri gegn Newcastle á Old Trafford, þar sem liðið hefur aðeins tapað einum deildarleik gegn Newcastle í rúm 50 ár.

Lífið undir stjórn nýja knattspyrnustjórans Ruben Amorim hefur ekki byrjað eins og menn höfðu vonast til í rauða hluta Manchester-borgar. Liðið hefur tapað fjórum og unnið aðeins tvo af síðustu sex leikjum sínum, auk þess að detta út úr deildabikarnum. Sigurleikirnir komu gegn Manchester City og Everton en tapleikirnir voru gegn Wolves, Bournemouth, Forest og Arsenal. Liðið situr nú í 14. sæti deildarinnar en gæti farið upp í 10. sætið með góðum úrslitum annað kvöld.

Bruno Fernandes, lykilleikmaður Manchester United, verður í leikbanni eftir að hafa fengið rautt spjald í síðasta leik gegn Wolves. Að auki verður Manuel Ugarte í banni á morgun en hann hefur byrjað alla leiki síðan í byrjun desember. Þetta þýðir að Amorim verður að gera breytingar á miðjunni. Marcus Rashford verður örugglega ekki aftur valinn í leikmannahópinn en hann virðist ekki vera í náðinni hjá Amorim. Victor Lindelöf, Luke Shaw og Mason Mount verða á meiðslalistanum hjá liðinu.

Hjá Newcastle er ekki mikið sem Eddie Howe, stjóri liðsins, þarf að breyta. Newcastle hefur unnið þrjá, gert tvö jafntefli og tapað einum í síðustu sex deildarleikjum sínum. Liðið hefur unnið þrjá deildarleiki í röð og skoraði í þeim leikjum 11 mörk og fékk ekkert á sig (gegn Leicester, Ipswich og Aston Villa). Newcastle situr í 5. sæti deildarinnar og gæti haldið því eða fallið niður í 10. sæti, allt eftir úrslitum annarra leikja.

Martin Dubravka hefur staðið sig frábærlega í markinu í stað Nick Pope, sem er meiddur, á meðan fjögurra manna varnarlína með Fabian Schar, Dan Burn, Lewis Hall og Valentino Livramento hefur verið framúrskarandi. Livramento var veikur í síðasta leik og gat ekki spilað, en vonir standa til að hann verði klár á morgun. Þriggja manna miðja með Bruno Guimarães, Sandro Tonali og Joelinton ætti að halda sæti sínu. Fyrir framan þá verður Jacob Murphy á hægri kantinum og Anthony Gordon á þeim vinstri. Alexander Isak mun að sjálfsögðu leiða línuna eftir að hafa skorað sjö mörk í síðustu fimm deildarleikjum.

Sven Botman, Emil Krafth, Nick Pope, Jamaal Lascelles og Callum Wilson verða allir áfram á meiðslalistanum.

Tölfræðin

  • Newcastle hefur skorað fimm mörk í síðustu tveimur heimsóknum sínum á Old Trafford í öllum keppnum.

  • Árið 2013 vann Newcastle sinn fyrsta deildarleik á Old Trafford síðan 1972. Cabaye skoraði þá eina mark leiksins eftir frábæran undirbúning Sissoko.

  • Newcastle hefur hins vegar ekki unnið í síðustu níu deildarleikjum sínum á Old Trafford eftir sigurleikinn árið 2013.

  • Newcastle vann þó tvo mikilvægi leiki í ensku bikarkeppninni á Old Trafford á tíunda áratugnum, auk þess að sigra Manchester United 3:0 í deildabikarnum á síðasta ári.

Líklegt byrjunarlið Newcastle

Leikmenn og tengsl liðanna

Það hafa verið nokkrir leikmenn í gegnum tíðina sem hafa spilað bæði með Manchester United og Newcastle United. Hér er listi yfir nokkra leikmenn.

Andy Cole

„Hefur ekki liðið svona síðan Andy Cole var senterinn” - Steindi Jr.

  • Tími hjá Newcastle: 1993–1995

  • Tími hjá Manchester United: 1995–2001

  • Andy Cole var stórkostlegur framherji hjá Newcastle og skoraði 68 mörk í 84 leikjum áður en hann var seldur til Manchester United fyrir metfé. Hjá Manchester United var hann lykilmaður í sigurgöngu liðsins og vann meðal annars Meistaradeildina árið 1999.

Nicky Butt

  • Tími hjá Manchester United: 1992–2004

  • Tími hjá Newcastle: 2004–2010

  • Butt var hluti af „Class of '92“ hjá Manchester United og vann marga titla með liðinu. Hann fór síðan til Newcastle og varð mikilvægur leikmaður, sérstaklega í baráttunni um að komast aftur upp í ensku úrvalsdeildina.

Gabriel Obertan

  • Tími hjá Manchester United: 2009–2011

  • Tími hjá Newcastle: 2011–2016

  • Franski kantmaðurinn átti erfitt uppdráttar hjá báðum liðum og tókst aldrei að skila stöðugum frammistöðum, en átti þó nokkra góða spretti hjá Newcastle.

Michael Owen

  • Tími hjá Newcastle: 2005–2009

  • Tími hjá Manchester United: 2009–2012

  • Owen kom til Newcastle sem stórstjarna en átti erfitt með meiðsli. Hjá Manchester United lék hann ekki stórt hlutverk en vann deildina með liðinu árið 2011.

Alan Smith

  • Tími hjá Manchester United: 2004–2007

  • Tími hjá Newcastle: 2007–2012

  • Smith var öflugur framherji sem breyttist í miðjumann hjá Manchester United. Hann gekk síðan í raðir Newcastle og hjálpaði liðinu að vinna ensku B-deildina árið 2010.

Aðeins eitt lag til að hita upp fyrir leikinn:

Previous
Previous

„Djöfull var geðveikt í gær“

Next
Next

Newcastle áfram á sigurbraut