„Djöfull var geðveikt í gær“

Okkar ástsæla lið, Newcastle United, endaði árið 2024 með stæl með því að leggja Manchester United að velli, 2:0, á Old Trafford í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi.

Old Trafford, oft kallað leikhús draumanna, hefur í mörg ár verið óvinnandi vígi fyrir Newcastle, þar sem liðið hafði fyrir leikinn einungis hrósað einum sigri í deildinni í rúm 50 ár.

„Ég vakna þunnur, djöfull var geðveikt í gær.“ Svona hljómuðu upphafsorðin í laginu Newcastle United eftir Steinda Jr. en það á eflaust við um nokkra stuðningsmenn liðsins í dag um allan heim, enda um að ræða kærkominn sigur í leikhúsi draumanna.

Byrjunarlið Newcastle var óbreytt frá síðasta leik og það sást í leikn­um að leikmenn Newcastle ætluðu sér að ná í úr­slit strax frá fyrstu mín­útu.

Newcastle byrjaði leikinn af gífurlegum krafti, eins og svo oft áður á leiktíðinni. Strax á 4. mín­útu fékk Lew­is Hall bolt­ann vinstra meg­in eftir langa sendingu frá Bruno Guimaraes og átti fyrirgjöf á Alexander Isak sem var óvaldaður í teign­um og skallaði bolt­ann örugglega í netið, 1:0. Isak hefur nú skorað átta mörk í síðustu sex deildarleikjum og er kominn með alls 12 mörk á leiktíðinni. Frábær byrjun fyrir Skjórana en martraðarbyrjun fyrir Rauðu djöflana.

Nokkrum mínútum seinna var Joelinton á ferðinni þegar hann skaut rétt yfir markið. Ant­hony Gor­don hafði í aðdragandanum farið mjög illa með Noussa­ir Mazra­oui, áður en hann gaf boltann á Joelinton.

Alexander Isak slapp þá einn í gegn eftir glæsilega sendingu frá Guimaraes. Isak fór hins vegar illa að ráði sínu og ákvað að vippa boltanum sem André On­ana átti í engum vandræðum með.

Eftir um tuttugu mínútna leik var Joel­int­on aftur á ferðinni og í þetta skiptið nýtti hann færið sitt. Ant­hony Gor­don gaf bolt­ann fyr­ir markið á Joel­int­on sem skallaði bolt­ann í netið og tvöfaldaði forystuna fyrir Newcastle á Old Trafford, 2:0.

Newcastle hefði getað fengið meira út úr leiknum eftir mörkin tvö. Sandro Tonali og Lew­is Hall fengu báðir fín færi fyr­ir utan teig í fyrri hálfleiknum og Sandro Tonali fékk þá al­gjört dauðafæri eftir um hálftíma leik þegar skot hans fór í stöngina.

Manchester United fékk dauðafæri í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar Kobbi Main­oo gaf boltann á Ca­sem­iro sem skaut viðstöðulaust fram hjá markinu.

Seinni hálfleikurinn var öllu rólegri en sá fyrri. Eftir um klukkutíma leik kom besta færið hjá Manchester United í leikn­um þegar Harry Maguire átti skalla sem fór í inn­an­verða stöng­ina. Leny Yoro átti þá góðan skalla rétt fram hjá marki Newcastle eft­ir horn­spyrnu um miðbik seinni hálfleiks­ins. Newcastle varðist virkilega vel í seinni hálfleiknum og Martin Dubravka tókst að halda hreinu fjórða deildarleikinn í röð.

Þar við sat og magnaður, en fyrst og fremst sann­gjarn 2:0-útisigur hjá Newcastle. Um er að ræða fyrsta deildarsig­ur Newcastle á Old Trafford síðan árið 2013.

Með sigrinum styrkti Newcastle stöðu sína í bar­átt­unni um Evr­óp­u­sæti og er nú með 32 stig í 5. sæti deildarinnar, aðeins þremur stigum á eftir Chelsea, sem er í 4. sæti.

Næsti leikur Newcastle er þann 4. janúar á nýju ári gegn Tottenham á útivelli.

Einkunnir Sky Sports

Newcastle: Dubravka (6), Trippier (7), Hall (8), Burn (7), Schar (6), Tonali (8), Joelinton (8), Guimaraes (8), Murphy (7), Isak (8), Gordon (8).

Varamenn: Livramento (6), Willock (n/a), Barnes (n/a).

Maður leiksins: Alexander Isak.

Svipmyndir frá mbl.is

Previous
Previous

Gleðilegt nýtt ár, kæru meðlimir

Next
Next

Vængbrotnir Rauðir djöflar taka á móti Newcastle