Newcastle áfram á sigurbraut

Newcastle United vann í dag sinn þriðja sigur í röð í ensku úrvalsdeildinni, með því að leggja Aston Villa að velli, 3:0, á St James’ Park.

Newcastle hélt uppteknum hætti og byrjaði leikinn af miklum krafti eins og í síðustu leikjum. Eftir góða skyndisókn fékk Anthony Gordon boltann á vinstri kantinum og kom Newcastle yfir með glæsilegu marki, 1:0. Hann gerði sér þá lítið fyrir og smellti boltanum innanfótar í bláhornið fjær.

Martin Dubravka stóð í marki Newcastle og tókst að halda markinu hreinu þriðja leikinn í röð í deildinni. Dubravka varði vel aukaspyrnu frá Lucas Digne um miðjan fyrri hálfleik. Á hinum enda vallarins nokkrum mínútum síðar átti Fabian Schar góða aukaspyrnu sem Emiliano Martinez í marki Aston Villa varði vel.

Það dró heldur betur til tíðinda eftir um hálftíma leik. Jhon Duran, framherji Aston Villa, fékk þá að líta beint rautt spjald fyrir að traðka ofan á Fabian Schar. Mikill hiti var í leikmönnum beggja liða eftir atvikið og voru leikmenn Aston Villa langt frá því að vera sáttir með Anthony Taylor, dómara leiksins, en það var einnig Jason Tindall, aðstoðarþjálfari Newcastle, sem fékk rautt spjald.

Rétt fyrir leikhlé átti Sandro Tonali gott skot á markið eftir undirbúning frá Bruno Guimaraes en Martinez í marki Aston Villa varði virkilega vel.

Newcastle hélt áfram að ógna eftir leikhléið. Alexander Isak tvöfaldaði forystuna fyrir Newcastle eftir um klukkutíma leik þegar hann skoraði af stuttu færi eftir góða sendingu af hægri kantinum frá Jacob Murphy. Þetta var fimmti leikurinn í röð þar sem Svíinn skorar í deildinni og er hann kominn með alls 11 deildarmörk á leiktíðinni.

Isak skoraði aftur í seinni hálfleiknum sem var hins vegar naum­lega dæmt af vegna rang­stöðu. Guimaraes skoraði sömuleiðis í seinni hálfleiknum þegar hann fékk boltann í sig rétt fyrir framan mark Aston Villa en markið var dæmt af vegna meintrar hendi. Murphy komst þá nálægt því að skora í seinni hálfleiknum þegar hann þrumaði boltanum í þverslána.

Joelinton innsiglaði svo sigurinn fyrir Newcastle í uppbótartíma með kraftmiklu skoti, þar sem hann fékk nægan tíma og pláss við vítateiginn og hamraði boltanum í fjærhornið. Lokatölur urðu því 3:0.

Newcastle er nú með 29 stig í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Næsti leikur liðsins er þann 30. desember gegn Manchester United á Old Trafford.

Einkunnir frá Sky Sports

Newcastle: Dubravka (7), Trippier (6), Schar (8), Burn (8), Hall (7), Tonali (8), Bruno (8), Joelinton (8), Murphy (7), Isak (7), Gordon (8)

Varamenn: Barnes (7), Targett (6)

Maður leiksins: Joelinton

Svipmyndir frá mbl.is

Previous
Previous

Vængbrotnir Rauðir djöflar taka á móti Newcastle

Next
Next

Him­in­lif­andi með sigrana þrjá