Himinlifandi með sigrana þrjá
Fyrir um tveimur vikum var nokkuð þungt hljóðið í stuðningsmönnum Newcastle United eftir svekkjandi 4:2 tap gegn Brentford á útivelli. Liðið leit ekki nógu vel út í þeim leik og virtist eiga í erfiðleikum með að ná stöðugleika. Mögulega var komin pressa á Eddie Howe, stjóra liðsins, en hluti stuðningsmanna voru sannfærðir um að næstu þrír leikir leiksins myndu ráða úrslitum um framtíð Howe hjá félaginu.
Eddie Howe stóðst heldur betur prófið og stýrði liðinu til sigurs í síðustu þremur leikjum mjög sannfærandi. Newcastle vann afar öflugan 4:0-heimasigur á Leicester City um þarsíðustu helgi, komst áfram í undanúrslit enska deilabikarsins eftir 3:1-heimasigur gegn Brentford síðasta miðvikudag og valtaði síðan yfir Ipswich, 4:0, á útivelli um nýliðna helgi.
„Ég er algjörlega himinlifandi með leikmennina og það sem þeir hafa lagt í þessa viku. Þetta var virkilega mikilvæg vika fyrir okkur. Að komast í undanúrslit enska deildabikarsins var eitt af stóru markmiðunum okkar og við þurftum að bæta frammistöðuna í deildinni, svo það var frábært að ná tveimur sigrum í röð í deildinni.
Við erum stöðugt að reyna að fínpússa hlutina og bæta okkur. Það eru ýmis smáatriði sem hafa hjálpað okkur að snúa gengi okkar við. Sóknarleikurinn hjá liðinu er að komast í sitt fyrra horf; erum sífellt að ógna í sókninni og skorum fullt af mörkum,“ sagði Howe eftir stórsigurinn á Ipswich.
Newcastle átti afbragsðleik gegn nýliðum Ipswich og sýndi þvílíka yfirburði í leiknum. Newcastle komst strax yfir á fyrstu mínútu leiksins með marki frá Alexander Isak sem fór á kostum og gerði þrennu í leiknum. Liðið sýndi mikla vinnusemi og pressaði Ipswich framarlega á vellinum, skapaði sér fullt af góðum færum og tókst að halda stöðugleika í vörninni.
Lestu um leikinn: Yfirburðir og fjögur mörk gegn Ipswich
Þetta var annar 4:0 sigur Newcastle í röð í ensku úrvalsdeildinni, en það er aðeins í þriðja sinn sem það gerist í sögu liðsins, að liðið sigri með fjórum mörkum eða mera. Síðast gerðist það fyrir 26 árum, eða árið 1998.
Newcastle skoraði því alls 11 mörk og fékk aðeins eitt á sig í síðustu þremur leikjum. Ákefð liðsins er orðin mun meiri og liðið hefur spilað feykilega vel á báðum endum vallarins. Það er hins vegar ljóst að verkefnin verða erfiðari á næstu vikum. Nú þarf liðið að halda áfram á þessari sigurbraut gegn Aston Villa, Manchester United og Tottenham Hotspur til að gera sig gildandi í baráttunni um Evrópusæti.