Áttundi sigurinn í röð
Newcastle United sneri taflinu við og sigraði Bromley úr ensku D-deildinni í ensku bikarkeppninni í dag. Þetta var áttundi sigur Newcastle í röð í öllum keppnum.
Fjölmargir lykilleikmenn voru hvíldir hjá Newcastle en byrjunarliðið var svona skipað: 4-3-3; Dubravka; Trippier, Schar, Kelly, Targett; Miley, Longstaff, Joelinton; Almiron, Barnes, Osula.
Bromley, sem var að mæta úrvalsdeildarliði í fyrsta sinn í sögunni, kom á óvart með því að ná forystunni snemma á St James' Park. Newcastle átti erfitt með að hreinsa langa sendingu og Cameron Congreve, lánsmaður frá Swansea City, skaut boltanum í neðra hornið rétt utan vítateigs og kom Bromley yfir, 1:0.
Newcastle jafnaði metin eftir um korter með frábæru marki þegar Lewis Miley skoraði með glæsilegu skoti af um 25 metra færi, 1:1.
Newcastle komst síðan yfir snemma í seinni hálfleik þegar varamaðurinn Anthony Gordon skoraði úr vítaspyrnu, 2:1, eftir að brotið hafði verið á Matt Targett.
William Osula bætti svo við sínu fyrsta marki fyrir Newcastle eftir um klukkatíma leik þegar hann hamraði boltanum í fjærhornið, 3:1. Glæsilegt mark hjá Osula og lokatölur urðu 3:1, Newcastle í vil.
Knattspyrnustjóri Bromley er Andy Woodman, fyrrverandi markmannsþjálfari Newcastle, en hann getur verið stoltur af frammistöðu sinna manna í leiknum.
Eftir leikinn var dregið í næstu umferð enska bikarsins og mun Newcastle mæta C-deildarliðinu Birmingham City á útivelli þann 8. febrúar næstkomandi.