Newcastle vann góðan sigur á Emirates
Newcastle United stendur vel að vígi í einvígi sínu gegn Arsenal í undanúrslitum enska deildabikarsins eftir 2:0-útisigur í fyrri leik liðanna á Emirates-leikvanginum í gærkvöldi.
Leikurinn hófst af krafti þar sem bæði lið fengu fín færi til að skora í byrjun. Joelinton fékk fínt færi á 4. mínútu eftir góða sendingu frá Alexander Isak, en skot hans fór hátt yfir markið. Á 13. mínútu fékk Arsenal hornspyrnu þar sem Declan Rice sendi boltann beint á Jurrien Timber sem skallaði yfir markið af stuttu færi.
Um miðjan fyrri hálfleik tók Arsenal öll völd á vellinum og komst afar nálægt því að skora. Eftir um rúmlega hálftíma leik sendi Leandro Trossard góðan bolta inn fyrir vörn Newcastle, þar sem Gabriel Martinelli fór einn á móti Martin Dúbravka og þrumaði boltanum beint í stöngina. Aðeins þremur mínútum síðar skapaðist mikil barátta í teig Newcastle eftir hornspyrnu Arsenal, en þrátt fyrir fjölda tilrauna tókst leikmönnum Arsenal ekki að koma boltanum í netið.
Á 37. mínútu tókst Newcastle síðan að skora fyrsta mark leiksins. Dúbravka tók aukaspyrnu við miðju og sendi boltann að vítateigi Arsenal, þar sem Sven Botman skallaði boltann til Jacob Murphy og boltinn hrökk af honum til Alexander Isak, sem skyndilega var kominn í upplagt færi og negldi boltanum í þverslána og inn, 1:0.
Newcastle tvofaldaði forystu sína í upphafi seinni hálfleiks. Á 51. mínútu átti Jacob Murphy góða sendingu á Alexander Isak, sem náði að komast í skotstöðu þrátt fyrir að vera með nokkra varnarmenn fyrir framan sig. David Raya varði skotið frá Isak en Anthony Gordon var fljótur að fylgja á eftir og setti boltann í netið, 2:0.
Kai Havertz fékk gott tækifæri á 58. mínútu eftir góða fyrirgjöf. Havertz missti þá af boltanum þegar hann ætlaði að skalla hann í markið en boltinn fór af öxlinni og út af. Á 64. mínútu átti William Saliba síðan skalla framhjá eftir hornspyrnu Declan Rice.
Heimamenn í Arsenal héldu áfram að pressa en áttu erfitt með að brjótast í gegnum þétta varnarlínu Newcastle. Leiknum lauk því með 2:0 sigri Newcastle. Þetta var sjöundi sigur Newcastle í röð í öllum keppnum.
Newcastle hefur nú tryggt sér tveggja marka forskot í undanúrslitum enska deildarbikarsins, en seinni leikurinn fer fram á St James’ Park þann 5. febrúar næstkomandi. Tottenham og Liverpool mætast í hinum undanúrslitaleiknum í kvöld. Sigurliðin úr þessum einvígum leika til úrslita á Wembley þann 16. mars næstkomandi.