Heimsókn á Emirates

Það er stórleikur á dagskrá annað kvöld þegar Newcastle United og Arsenal eigast við á Emirates-leikvanginum í fyrri leik sínum í undanúrslitum enska deildabikarsins. Leikurinn hefst klukkan 20:00 og verður í beinni útsendingu á Viaplay.

Gengi Arsenal hefur verið gott að undanförnu og liðið er ósigrað í síðustu 13 leikjum sínum í öllum keppnum. Liðið gerði 1:1 jafntefli við Brighton síðasta laugardag og hafði fyrir þann leik unnið fjóra leiki í röð. Arsenal er enn í baráttunni um enska meistaratitilinn, þrátt fyrir að hafa misst af enn einu tækifærinu til að minnka bilið við topplið Liverpool um nýliðna helgi.

Arsenal hef­ur slegið út Bolton, Preston og Crystal Palace á leið sinni í undanúrslitin, á meðan Newcastle sló út Nottingam Forest, Wimbledon, Chelsea og Brentford.

Undir stjórn Mikel Arteta hefur Arsenal tekið upp varnarsinnaðri nálgun en á síðustu leiktíðum. Þessi leikaðferð hefur leitt til þess að Arsenal hefur fengið á sig fæst mörk í ensku úrvalsdeildinni, aðeins 18 mörk. Arsenal hefur einnig styrkt sig í föstum leikatriðum og er liðið með flest mörk skoruð úr föstum leikatriðum.

Arsenal glímir þó við meiðslavandræði. Lykilleikmaður liðsins, Bukayo Saka, hefur verið frá í síðustu leikjum vegna meiðsla og það hefur haft áhrif á sóknarleik liðsins. Ethan Nwaneri, 17 ára kantmaður sem hefur vakið athygli fyrir frammistöðu sína undanfarið, varð síðan fyrir meiðslum í leiknum gegn Brighton og verður ekki með annað kvöld. Raheem Sterling, Ben White og Takehiro Tomiyasu eru einnig frá, en Jurrien Timber snýr aftur eftir leikbann og óljóst er með þátttöku Kai Havertz í leiknum. Fyrirliðinn Martin Ødegaard, sem byrjaði á varamannabekknum gegn Brighton, er hins vegar væntanlegur aftur í byrjunarlið Arsenal.

Newcastle mun mæta til leiks með fullt sjálfstraust eftir að hafa unnið sex leiki í röð í öllum keppnum. Ef Newcastle sigrar Arsenal í tveimur leikjum, kemst liðið í sinn annan bikarúrslitaleik á þremur árum, en Newcastle laut í lægra haldi fyrir Manchester United í úrslitum deildabikarsins fyrir tveimur árum.

Eddie Howe þarf þó einnig að gera breytingar á liðinu vegna fjarveru leikmanna. Bruno Guimaraes og Fabian Schar verða í leikbanni, á meðan Callum Wilson, Emil Krafth og Jamaal Lascelles eru áfram frá vegna meiðsla.

Í síðustu fimm viðureignum liðanna hafa liðin verið nokkuð jöfn, en Arsenal vann þrjá leiki og Newcastle tvo. Í síðasta leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni hafði Newcastle betur, 1:0.

Líklegt byrjunarlið Arsenal: Raya; Timber, Saliba, Gabriel, Lewis-Skelly; Odegaard, Partey, Rice; Martinelli, Jesus, Trossard.

Líklegt byrjunarlið Newcastle: Dubravka; Trippier, Kelly, Burn, Hall; Longstaff, Tonali, Joelinton; Murphy, Isak, Gordon.

Previous
Previous

Newcastle vann góðan sigur á Emirates

Next
Next

Sig­ur­gang­an held­ur áfram