Sig­ur­gang­an held­ur áfram

Newcastle United hélt góðu gengi sínu áfram og vann sinn fimmta sigur í röð í ensku úrvalsdeildinni þegar liðið hafði betur gegn Tottenham Hotspur, 2:1, á útivelli í hádegisleik í dag.

Newcastle byrjaði leikinn ekki nógu vel og lenti undir strax á 3. mínútu þegar Pedro Porro sendi fyrir á Dominic Solanke sem skallaði boltann í netið, 1:0.

Aðeins tveimur mínútum síðar jafnaði Anthony Gordon metin fyrir Newcastle með lágu skoti framhjá Brandon Austin, markverði Tottenham. Bruno Guimares lagði markið upp en í aðdragandanum reyndi Lucas Berg­vall, leikmaður Tottenham, að senda boltann á miðjuna sem fór hins vegar í höndina á Joel­int­on. Atvikið var skoðað vel í VAR-sjánni og niðurstaðan var sú að Joel­int­on var með hönd­ina í nátt­úru­legri stöðu og upp við lík­amann. Markið því dæmt gott og gilt, 1:1.

Sven Botman sneri til baka eftir um níu mánaða fjarveru og var í byrjunarliði Newcastle í leiknum. Hann átti góða endurkomu og var öflugur í vörninni.

Pedro Porro átti skot yfir markið af löngu færi eftir um hálftíma leik en Newcastle var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik.

Alexander Isak skapaði sér færi í fyrri hálfleiknum en skaut framhjá í fyrstu tilraun. Hann bætti það svo upp stuttu síðar með marki eftir að boltinn hrökk til hans frá varnarmanni Tottenham, 2:1. Isak jafnaði þar með met Alan Shearer og Joe Willock með því að skora í sjö úrvalsdeildarleikjum í röð fyrir Newcastle.

Tottenham reyndi að snúa leiknum við í seinni hálfleiknum og komst nálægt því að jafna metin. Dubravka varði vel lágt skot frá Pape Matar Sarr og Brennan Johnson skaut í kjölfarið í stöngina úr mjög þröngu færi.

Tottenham gerði þrefalda skiptingu eftir um klukkutíma leik, þar sem þeir Heung-Min Son, James Maddison og Yves Bissouma komu allir inn á. Tottenham var meira með boltann eftir þessar skiptingar á meðan Newcastle varðist aft­ar­lega og freistaði þess að sækja hratt.

Maddison var nálægt því að jafna metin á 82. mínútu með hnitmiðuðu skoti sem fór rétt framhjá eftir stutta hornspyrnu.

Alls tíu mín­út­um var bætt við venju­leg­an leiktíma. Solanke átti tvær fínar skallatilraunir í uppbótartímanum á meðan Austin í marki Tottenham þurfti að verja skottilraun frá Harvey Barnes, sem kom inn á sem varamaður.

Leiknum lauk því með 2:1-útisigri Newcastle sem hefur unnið alls sex leiki í röð í öllum keppnum. Newcastle er með 35 stig eftir 20 umferðir.

Næsti leikur Newcastle er á þriðju­dag­inn kem­ur þegar liðið fer í heimsókn til Arsenal í fyrri viðureign liðanna í undanúrslitum enska deildabikarins.

Svipmyndir frá mbl.is

Previous
Previous

Heimsókn á Emirates

Next
Next

Newcastle heimsækir Tottenham