Newcastle heimsækir Tottenham

Newcastle United mætir Tottenham Hotspur á útivelli í hádegisleik í ensku úrvalsdeildinni á morgun. Leikurinn hefst klukkan 12:30 og stuðningsmenn Newcastle ætla að hittast á Ölver og horfa á leikinn saman.

Tottenham gengur nú í gegnum erfitt tímabil, með aðeins einn sigur í síðustu sjö leikjum í ensku úrvalsdeildinni og hefur ekki unnið á heimavelli í síðustu fimm heimaleikjum sínum, sem er versti árangur liðsins á heimavelli frá árinu 2008. Liðið situr í 11. sæti deildarinnar með 24 stig, átta stigum á eftir Newcastle.

Meiðsli hafa sett strik í reikn­ing­inn hjá Tottenham, þá sérstaklega í varnarlínunni. Mikilvægir leikmenn eru frá hjá Tottenham en alls átta leikmenn hjá liðinu eru á meiðslalistanum, þar á meðal markmaðurinn Vicario, miðvarðarparið Cristian Romero og Micky van de Ven, ásamt Udogie og Richarlison. Þá verður Rodrigo Bentacur í leikbanni.

Ange Postecoglou, knatt­spyrn­u­stjóri Totten­ham, hefur verið harðlega gangrýndur fyrir að breyta ekki leikskipulagi sínu í síðustu leikjum. Und­ir stjórn Postecoglou spil­ar Totten­ham hápressu og er með varn­ar­línu sína mjög framar­lega á vell­in­um, sem hefur orðið til þess að liðið hefur fengið mörg mörk á sig, eða alls 16 mörk í síðustu fimm deildarleikjum. Vegna gífurlegra forfalla hefur Postecoglou þurft að tefla fram óreyndum leikmönnum í vörninni.

Newcastle United hefur hins vegar verið á mjög góðri siglingu að undanförnu og unnið fjóra deildarleiki í röð án þess að fá á sig mark. Eddie Howe, knattspyrnustjóri Newcastle, hefur hrósað varnarleik liðsins mikið en er þó meðvitaður um það að Tottenham geti verið mjög hættu­legt fram á við.

Newcastle verður án Fabian Schar sem tekur út leikbann vegna of margra gulra spjalda. Sven Botman verður líklega í leikmannahópnum en hann hefur verið frá vegna meiðsla í níu mánuði. Ólíklegt er þó að hann komi beint inn í byrjunarliðið á morgun og því má reikna með því að Lloyd Kelly byrji við hlið Dan Burn í hjarta varnarinnar. Valentino Livramento mun að öllum líkindum byrja í stöðu hægri bakvarðar í stað Kieran Trippier, sem þurfti að fara meiddur af velli í síðasta leik. Telja verður ólíklegt að Howe geri fleiri breytingar á byrjunarliðinu.

Sögulega hafa viðureignir Tottenham Hotspur og Newcastle United verið nokkuð jafnar. Í síðasta leik liðanna fyrr á þessari leiktíð sigraði Newcastle með 2:1 sigri á St James' Park.

Fjölmargir punktar fyrir leik

  • Tottenham hefur unnið tvo af síðustu þremur heimaleikjum sínum gegn Newcastle í ensku úrvalsdeildinni.

  • Newcastle hefur hins vegar unnið fjóra af síðustu fimm leikjum sínum gegn Tottenham í ensku úrvalsdeildinni og tapað einum.

  • Liðin hafa aldrei gert markalaust jafntefli í ensku úrvalsdeildinni. Í 59 fyrri viðureignum þeirra í deildinni hafa verið skoruð alls 189 mörk, að meðaltali 3,2 mörk í leik.

  • Tottenham hélt síðast hreinu á heimavelli í síðastliðnum ágúst þegar liðið vann 4:0 sigur gegn Everton.

  • Tottenham hefur fengið á sig 15 mörk í síðustu fjórum heimaleikjum sínum í öllum keppnum.

  • Brennan Johnson hefur komið að marki í síðustu fjórum heimaleikjum Tottenham í deildinni, skorað tvö og lagt upp önnur tvö.

  • Newcastle hefur ekki unnið í fjórum deildarleikjum sínum í London á þessari leiktíð, en liðið gerði jafntefli við Crystal Palace og tapaði gegn Fulham, Chelsea og Brentford.

  • Newcastle hefur á síðustu tólf leiktíðum aðeins einu sinni unnið sinn fyrsta leik á nýju ári (3 jafntefli, 8 töp). Newcastle vann Stoke 1:0 á nýársdag árið 2018.

  • Alexander Isak hefur skorað í sex deildarleikjum í röð, með samtals átta mörk í þeim leikjum.

  • Isak skoraði 25 deildarmörk árið 2024, mest af öllum Newcastle leikmönnum á einu almanaksári síðan árið 2002 þegar Alan Shearer skoraði 27 mörk.

Líklegt byrjunarlið Tottenham: Forster; Porro, Dragusin, Gray, Spence; Bissouma, Sarr, Maddison; Kulusevski, Son, Solanke

Líklegt byrjunarlið Newcastle

Previous
Previous

Sig­ur­gang­an held­ur áfram

Next
Next

Gleðilegt nýtt ár, kæru meðlimir