Ekkert fær stöðvað Newcastle

Newcastle United vann góðan 3:0 sigur á St James’ Park gegn Wolves í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Newcastle hefur nú unnið níu leiki í röð í öllum keppnum.

Alexander Isak fór enn einu sinni á kostum fyrir Newcastle og skoraði hann fyrstu tvö mörk liðsins í leiknum, áður en Anthony Gordon innsiglaði sigurinn.

Isak varð þar með fjórði leikmaðurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar til þess að skora í átta deildarleikjum í röð. Jamie Vardy, Ruud van Nistelrooy og Daniel Sturridge hafa einnig afrekað það.

Eddie Howe, stjóri Newcastle, gerði níu breytingar á byrjunarliðinu frá bikarleiknum gegn Bromley. Fabian Schar var ekki í leikmannahópnum vegna veikinda og Harvey Barnes var frá vegna meiðsla.

Gestirnir fengu fínt tækifæri í byrjun leiks þar sem Goncalo Guedes skaut rétt framhjá markinu en Newcastle var líklegra til þess að skora fyrsta markið.

Jose Sá, markvörður Wolves, þurfti að hafa sig all­an við að verja fasta skottilraun frá Jacob Murphy og Isak átti gott skot sem fór í utanverða stöngina í fyrri hálfleiknum.

Isak braut svo ísinn á 34. mínútu með laglegu marki. Isak hafði fengið boltann á vinstri kantinum og sótti að marki gestanna með marga varnarmenn í kringum sig og tók gott skot sem hafði viðkomu í varnarmanni, 1:0.

Undir lok fyrri hálfleiksins átti Strand Larsen, sóknarmaður Wolves, skot í stöngina eftir skyndisókn.

Isak tvöfaldaði forystuna fyrir Newcastle á 57. mínútu eftir að hafa fengið frábæra stungusendingu frá Bruno Guimarães í gegnum vörn Wolves. Isak var óvaldaður í teignum og afgreiddi boltann örugglega í markið, 2:0.

Anthony Gordon gerði síðan þriðja mark Newcastle á 74. mínútu. Isak lagði upp markið þegar hann fann óvaldaðan Gordon sem setti boltann örugglega í netið, 3:0. Markið var skoðað í VAR-sjánni vegna mögulegrar rangstöðu en reyndist síðan gott og gilt.

Rétt undir lok leiks var mark dæmt af gestunum þegar Santiago Bueno náði að pota boltanum inn. Bueno hafði fengið boltann í höndina og markið því dæmt af í VAR-sjánni.

Dúbravka í markinu gerði mjög vel í blálokin þegar hann kom í veg fyrir að Strand Larsen myndi ná inn sárabótarmarki. Dúbravka, sem fagnar 36 ára afmæli sínu í dag, hélt því enn og aftur hreinu.

Newcastle komst með sigrinum upp í 4. sæti deildarinnar og er nú með 38 stig, þremur stigum á eftir Nottingham Forest, sem er í 3. sæti.

Svipmyndir

Previous
Previous

Newcastle get­ur sett nýtt met

Next
Next

Áttundi sigurinn í röð