Newcastle get­ur sett nýtt met

Newcastle United getur sett nýtt félagsmet með því að vinna tíunda leikinn í röð í öllum keppnum þegar liðið fær Bournemouth í heimsókn á St James’ Park í hádeginu á morgun.

Alexander Isak skoraði fyrstu tvö mörkin fyrir Newcastle í 3:0-heimasigri liðsins gegn Wolves í miðri viku en það var níundi sigur liðsins í röð í öllum keppnum.

Isak hefur verið stórkostlegur á leiktíðinni og með þessum mörkum í síðasta leik varð hann fjórði leikmaðurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar til þess að skora í átta deildarleikjum í röð. Jamie Vardy á enn metið þar sem hann skoraði í ellefu deildarleikjum í röð árið 2015.

Newcastle hefur unnið síðustu sex deildarleiki sína með markatölunni 18:1 og liðið situr nú í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 38 stig, aðeins fimm stigum á eftir Arsenal í 2. sætinu og níu stigum á eftir toppliði Liverpool.

Gestirnir á morgun

Undir stjórn Andoni Iraola hefur Bournemouth tileinkað sér kraftmikinn leikstíl á þessari leiktíð. Iraola hefur innleitt hugmyndafræði sem leggur áherslu á mikla ákefð, hraðar skyndisóknir og beinskeyttan leikstíl með löngum sendingum.

Sem stendur er Bournemouth í 8. sæti, aðeins fjórum stigum á eftir Newcastle og hefur komið sér í stöðu sem alvöru keppinautur í efri hlutanum. Lykilleikmenn Bournemouth hafa verið frá vegna meiðsla, eins og Evanilson, Enes Ünal og Luis Sinisterra, en þrátt fyrir það hefur liðið sýnt ótrúlega seiglu.

Bournemouth er sigurlaust í síðustu fimm heimsóknum sínum á St James’ Park í öllum keppnum en síðasti sigur liðsins þar kom í nóvember 2017 þegar Eddie Howe, núverandi stjóri Newcastle, stýrði Bournemouth.

Líklegt byrjunarlið Bournemouth: 4-2-3-1; Travers; Cook, Zabarnyi, Huijsen, Kerkez; Christie, Adams; Brooks, Kluivert, Semenyo; Ouattara.

Newcastle-liðið á morgun

Eddie Howe sat fyrir svörum fréttamanna á blaðamannafundi í dag. Howe sagði að Fabian Schar væri ekki orðinn 100% klár eftir að hafa glímt við veikindi í vikunni og óvíst væri með þátttöku hans í leiknum.

„Þetta verður nánast sama liðið og mætti Wolves á miðvikudagskvöld,“ sagði Howe á blaðamannafundinum.

Jamaal Lascelles, Harvey Barnes, Callum Wilson og Nick Pope verða áfram á meiðslalistanum. Howe sagði að Pope yrði mögulega klár gegn Southampton þann 25. janúar og Wilson myndi líklega snúa aftur til leiks í byrjun næsta mánaðar.

Líklegt byrjunarlið

Previous
Previous

Sig­ur­gang­an á enda

Next
Next

Ekkert fær stöðvað Newcastle