Tap gegn Fulham
Newcastle United laut í lægra haldi fyrir Fulham í gær, 2:1, á St James’ Park í 24. umferð ensku úrvalsdeildarinnar.
Það leit út fyrir að Newcastle myndi eiga þægilegan dag þar sem liðið réði lögum og lofum í fyrri hálfleik. Sandro Tonali komst nálægt því að skora þegar hann átti góða skottilraun sem fór í þverslána. Jacob Murphy kom Newcastle svo yfir á 37. mínútu leiksins eftir góða skyndisókn, 1:0.
Fulham byrjaði hins vegar seinni hálfleikinn af miklum krafti og liðið átti tvö skot á markið strax á fyrstu tveimur mínútunum í seinni hálfleik. Jimenez tókst síðan að jafna metin fyrir Fulham eftir rúmlega klukkutíma leik með lágu skoti í teignum, 1:1.
Alexander Isak komst nálægt því að skora fyrir Newcastle þegar hann skaut í slána á 75. mínútu. Aðeins sjö mínútum síðar fullkomnaði Fulham endurkomuna þegar Muniz skoraði á nærstönginni upp úr aukaspyrnu, 2:1.
Newcastle mistókst þar með að komast upp í 4. sætið. Eftir 24 umferðir situr Newcastle í 5. sætinu með 41 stig.
Næsti leikur liðsins er á miðvikudaginn kemur þegar Arsenal kemur í heimsókn í seinni viðureign liðanna í undanúrslitum enska deildabikarsins, en Newcastle leiðir einvígið 2:0.
Einkunnir Sky Sports
Newcastle: Dubravka (6); Livramento (6), Schar (6), Burn (6), Hall (6); Guimaraes (6), Tonali (6), Joelinton (5); Murphy (7), Isak (6), Gordon 6).
Varamenn: Trippier (6), Willock (6), Kelly (n/a), Miley (n/a), Osula (n/a).