Sigur sóttur á suðurströndinni

Newcastle United gerði góða ferð til Southampton á suðurströnd Englands og vann góðan 3:1 sigur á heimamönnum í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Newcastle fór ekki nógu vel af stað í leiknum og leikmenn liðsins áttu í byrjun erfitt með að finna taktinn. Southampton komst yfir eftir aðeins tíu mínútur þegar Jan Bednarek skoraði skallamark eftir góða fyrirgjöf, 1:0.

Markahrókurinn Alexander Isak ætlaði hins vegar ekki að tapa fyrir botnliðinu og hélt uppteknum hætti. Isak nældi sér í vítaspyrnu á 26. mínútu þegar Joe Aribo braut á honum í vítateignum. Atvikið var skoðað vel í VAR-sjánni og vítaspyrna dæmd. Isak fór sjálfur á vítapunktinn og skoraði af miklu öryggi, 1:1.

Aðeins fjórum mínútum síðar skoraði Isak aftur þegar hann fékk frábæra stungusendingu frá Jacob Murphy. Isak tók vel á móti boltanum og setti hann snyrtilega framhjá McCarthy í markinu, 2:1. Með markinu fór Isak framúr Callum Wilson yfir fjölda marka fyrir Newcastle í ensku úr­vals­deild­inni frá upp­hafi og er nú orðinn næstmarkahæstur með 48 mörk. Alan Shearer er markahæstur með 148 mörk.

Joelinton, sem skoraði sigurmarkið í fyrri leiknum gegn Southampton í haust, skaut í stöngina í fyrri hálfleiknum. Brasilíumaðurinn tók boltann niður inni í teignum en skot hans small í stönginni.

Southampton komst nálægt því að jafna metin snemma í seinni hálfleik. Taylor Harwood-Bellis reyndi þá hjólhestapyrnu sem Martin Dúbravka náði að verja frábærlega.

Í seinni hálfleik var Newcastle með öll völd á vellinum og Sandro Tonali bætti við þriðja markinu á 55. mínútu eftir frábært samspil. Tonali lagði sig allan fram við að vinna skalla á miðjunni og komst síðan einn á móti markmanni og skaut boltanum fast í neðra vinsta hornið, 3:1. Í aðdragandanum voru það alls þrjár snertingar sem sundruðu Southampton án þess að boltinn snerti jörðina. Þetta glæsilega mark má sjá hér að neðan.

Newcastle fékk góð tækifæri til að skora fjórða markið. Jacob Murphy tók skot fyrir utan teig sem fór í stöngina og varnarmaður Southampton bjargaði síðan á línu frá Joelinton.

Southampton virtist hafa minnkað muninn í lokin þegar Mateus Fernandes skoraði eftir langa sendingu frá McCarthy, en eftir langa skoðun í VAR-sjánni var markið dæmt af vegna rangstöðu.

Lokatölur urðu því 3:1, Newcastle í vil. Newcastle hefur nú unnið fjóra útileiki í röð í deildinni en það er í fyrsta sinn síðan árið 1996.

Næst er heimaleikur gegn Fulham þann 1. febrúar. Newcastle er í 5. sæti með 41 stig eftir 23 umferðir.

Svipmyndir úr leiknum frá mbl.is

Previous
Previous

Tap gegn Fulham

Next
Next

Newcastle fylgist með Hákoni