Newcastle fylgist með Hákoni
Newcastle United fylgist með Hákoni Arnari Haraldssyni, leikmanni franska úrvalsdeildarliðsins Lille, samkvæmt enska dagblaðinu Daily Mail.
Steve Nickson, yfirútsendari hjá Newcastle United, hefur mætt á leiki hjá Lille í vetur og fylgdist með Hákoni þegar hann skoraði í 2:1 sigri liðsins gegn Nice um síðustu helgi. Nickson var einnig sagður hafa verið að fylgjast með sóknarmanninum Jonathan David, sem hefur verið orðaður við Newcastle og mun að öllum líkindum yfirgefa Lille á frjálsri sölu í sumar.
Hinn 21 árs gamli Hákon hefur verið einn besti leikmaður Lille frá því að hann kom til liðsins frá danska úrvalsdeildarliðinu FC Kaupmannahöfn sumarið 2023. Hákon átti mjög góðan leik með Lille síðasta þriðjudag þegar liðið þurfti að sætta sig við naumt tap, 2:1, fyrir Liverpool í Meistaradeildinni.
Hákon er einn efnilegasti leikmaður okkar Íslendinga og er gríðarlega spennandi leikmaður og leikur ýmist sem miðjumaður, kantmaður eða sem sóknartengiliður. Hákon hefur einnig vakið áhuga annarra liða í ensku úrvalsdeildinni, þ. á m. Tottenham, Crystal Palace og Manchester United.
Hákon er uppalinn á Skaganum, líkt og Bjarni Guðjónsson sem var á mála hjá Newcastle United leiktíðina 1997-98. Bjarni lék þó ekki leik með aðalliðinu í þann stutta tíma sem hann var hjá liðinu.