Sigur á Arsenal - Wembley bíður!
Newcastle United er búið að tryggja sér þátttöku í úrslitaleik enska deildabikarsins eftir heimasigur á Arsenal, 2:0, í seinni leik liðanna í undanúrslitum á St James’ Park í kvöld.
Eftir tapið gegn Fulham um síðustu helgi gerði Eddie Howe, stjóri Newcastle, nokkrar breytingar á byrjunarliðinu og setti Kieran Trippier og Sven Botman í óhefðbundna þriggja manna varnarlínu, með Trippier og Lewis Hall sem vængbakverði. En það var þó Arsenal-vörnin sem þurfti fyrst að verjast, þar sem það tók aðeins fjórar mínútur fyrir Alexander Isak að brjóta sér leið í gegnum háa varnarlínu gestanna. Anthony Gordon átti stungusendingu á Isak sem hamraði boltanum upp í vinstra hornið, en eftir langa VAR-skoðun var markið dæmt af vegna rangstöðu.
Arsenal slapp þar með skrekkinn og hafði byrjað af krafti. Martin Ødegaard átti tvö færi með stuttu millibili í fyrri hálfleik, fyrst var skot hans varið af Sven Botman og síðan fór annað skot hans í utanverða stöngina eftir sendingu frá Gabriel Martinelli.
Newcastle-liðið var stórhættulegt í skyndisóknum í leiknum sem skilaði liðinu fyrsta markinu sem Jacob Murphy skoraði á 19. mínútu leiksins. Murphy fylgdi þá eftir stangarskoti Alexander Isak, 1:0.
Arsenal reyndi að svara með skottilraun frá Leandro Trossard en Martin Dúbravka varði vel í markinu. Þá komst Gordon nærri því að bæta við marki fyrir Newcastle í uppbótartíma fyrri hálfleiks en skot hans fór rétt framhjá.
Annað markið hjá Newcastle kom síðan eftir slæm varnarmistök hjá Arsenal á 52. mínútu. David Raya átti slæma sendingu frá markinu og Newcastle vann boltann við vítateiginn sem endaði með því að Anthony Gordon skoraði, 2:0.
Mikel Arteta, stjóri Arsenal, reyndi að bregðast við og setti Mikel Merino og Raheem Sterling inn á til að styrkja sóknarleikinn, en þrátt fyrir að Arsenal var meira með boltann þá skapaðist ekkert almennilegt færi hjá liðinu. Lokatölur urðu því 2:0, Newcastle í vil.
Newcastle vann fyrri leikinn á útivelli 2:0 og einvígið því samanlagt 4:0. Newcastle mætir annaðhvort Liverpool eða Tottenham í úrslitum, en Tottenham er með 1:0-forystu eftir heimasigur í fyrri leiknum.
Úrslitaleikurinn verður þann 16. mars næstkomandi og leikið verður á Wembley-leikvanginum.