Sigur gegn Birmingham
Newcastle United sigraði Birmingham City 3:2 í fjórðu umferð enska bikarsins á útivelli í dag.
Eddie Howe gerði níu breytingar á liðinu frá sigrinum gegn Arsenal í enska deildabikarnum síðasta miðvikudag; 4-3-3; Pope; Livramento, Kraft, Burn, Targett; Longstaff, Guimaraes, Miley; Osula, Willock, Wilson.
Birmingham komst yfir eftir aðeins 44 sekúndur þegar Ethan Laird skoraði með skoti sem fór af Callum Wilson.
Joe Willock jafnaði metin fyrir Newcastle með marki sem markvörður heimamanna virtist verja, en aðstoðardómarinn dæmdi boltann inni.
Stuttu síðar skoraði Callum Wilson og kom Newcastle í forystu eftir sendingu frá Tino Livramento.
Birmingham jafnaði metin rétt fyrir leikhlé með glæsilegu langskoti frá Tomoki Iwata.
Newcastle stjórnaði leiknum betur í seinni hálfleiknum og eftir langa bið vegna meiðsla leikmanns Birmingham náði Newcastle að knýja fram sigur. Willock kláraði vel úr þröngu færi og skaut boltanum á milli fóta markvarðarins Peacock-Farrell.
Nick Pope þurfti að verja öflugt skot í lokin og Jacob Murphy komst nálægt því að bæta við marki áður en leiknum lauk. Lokatölur urðu því 3:2, Newcastle í vil.
Newcastle tryggði sér þar með sæti í fimmtu umferð bikarsins.