Einum sigri frá því að enda 70 ára titlaþurrð
Liðsmynd eftir sigurinn á Arsenal í vikunni.
Yfirlit yfir helstu fréttir síðustu daga og vikur; Bikarúrslit, breytingar á leikmannahópnum, framtíð St James’ Park og fleira.
Newcastle United er komið í úrslitaleik enska deildabikarsins í annað sinn á aðeins tveimur árum, eftir sannfærandi 2:0 sigur á Arsenal í seinni undanúrslitaleiknum á St James’ Park síðasta miðvikudag. Newcastle vann einvígið samanlagt 4:0 og er liðið nú aðeins einum sigri frá því að enda 70 ára titlaþurrð.
Newcastle goðsögnin Alan Shearer sagði í viðtali á dögunum að hann myndi vera ánægður ef Newcastle myndi aðeins sigra tvo leiki það sem eftir lifði leiktíðar, svo framarlega að annar sigurleikurinn væri í úrslitaleiknum gegn Liverpool. Þetta undirstrikar hversu mikilvægt það væri fyrir liðið að vinna sinn fyrsta stóra titil í 70 ár, en Newcastle tapaði fyrir Manchester United í úrslitum enska deildabikarsins fyrir tveimur árum.
Liðið hefur sýnt mikinn styrk bæði í deildabikarnum og enska bikarnum, þar sem það tryggði sér sæti í fimmtu umferð með dramatískum sigri gegn Birmingham City í gær.
Á síðustu vikum hafa orðið breytingar á leikmannahópnum og þá skoðar félagið framtíðaráætlanir fyrir St James’ Park-leikvanginn.
Næstu vikur verða krefjandi fyrir Newcastle, þar sem liðið mætir bæði Manchester City og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni áður en það tekur þátt í úrslitaleiknum á Wembley-leikvanginum þann 16. mars.
Breytingar á leikmannahópnum
Miguel Almirón er farinn til Bandaríkjanna.
Í janúarglugganum urðu nokkrar breytingar á leikmannahópnum. Varnarmaðurinn Lloyd Kelly var lánaður til Juventus út leiktíðina. Lánssamningurinn er metinn á 3 milljóinir evra og inniheldur ákvæði um að Juventus tryggi sér þjónustu Kelly upp á 14,5 milljónir evra ef ákveðin skilyrði verða uppfyllt. Kelly, sem kom frá Bournemouth síðasta sumar, hafði leikið 10 leiki í ensku úrvalsdeildinni fyrir Newcastle áður en hann var lánaður.
Miguel Almirón er farinn til bandaríska liðsins Atlanta United og er kaupverðið talið vera um 11 milljónir punda. Almirón kom til Newcastle frá Atlanta United í byrjun árs 2019 og gerði frábæra hluti í þessi sex ár. Almirón stóð upp úr þegar liðið tryggði sér sæti í Meistaradeildinni fyrir tveimur árum, en hann skoraði 11 deildarmörk leiktíðina 2022-23.
Þá var Isaac Hayden lánaður til enska B-deildarliðsins Portsmouth.
Enginn leikmaður kom til félagsins.
Nýjar áætlanir
Mögulegar breytingar á St James’ Park.
Utan vallar eru stjórnendur Newcastle að íhuga stórar breytingar á St James’ Park-leikvanginum. Verið er að kanna möguleikann á því að byggja nýjan leikvang að andvirði 1,2 milljarða punda. Sá leikvangur myndi liggja yfir hluta á núverandi staðsetningu og ná inn í Leazes Park, sem er friðað almenningssvæði.
Nýi leikvangurinn gæti rúmað um 70.000 áhorfendur, sem myndi gera hann að næststærsta félagsvelli á Englandi. Hins vegar gætu umhverfisverndarsjónarmið skapað hindranir fyrir þessa áætlun.
Önnur leið sem er til skoðunar er að stækka Gallowgate End-stúkuna á núverandi leikvangi. Stuðningsmenn verða fljótlega kallaðir til samráðs áður en ákvörðun verður tekin um framhaldið.
Sonur Cheick Tioté fylgdi leikmönnum inn á völlinn
Í leiknum gegn Arsenal í vikunni hélt Newcastle minningu Cheick Tioté á lofti með því að leyfa syni hans, Rafael, að fylgja leikmönnum liðsins inn á völlinn. Það eru orðin 14 ár síðan Cheick Tioté skoraði sitt frægasta mark í 4:4 jafntefli gegn Arsenal.
Cheick Tioté lék með Newcastle árin 2010-2017 og lést úr hjartastoppi aðeins 30 ára gamall.
Krefjandi leikir framundan
Newcastle á erfiða leiki fyrir höndum í næstu umferðum í ensku úrvalsdeildinni, en hér að neðan eru næstu þrír leikir liðsins.
Manchester City – Newcastle United
Laugardagur, 15. febrúar 2025, kl. 15:00 – Etihad Stadium
Newcastle United – Nottingham Forest
Sunnudagur, 23. febrúar 2025, kl. 14:00 – St James’ Park.
Liverpool – Newcastle United
Miðvikudagur, 26. febrúar 2025, kl. 20:15 – Anfield