Stórsigur gegn Leicester
Newcastle United vann góðan 4:0-heimasigur á Leicester City í 16. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag.
Newcastle tók öll völd á vellinum í fyrri hálfleik og komst yfir eftir hálftíma leik, þegar Jacob Murphy, sem hafði áður farið illa með tvö færi, skoraði með lágu skoti í hornið eftir vel útfærða hornspyrnu en Anthony Gordon lagði upp markið. Staðan í hálfleik var 1:0.
Leicester þurfti að gera breytingu í leikhléi þar sem markmaðurinn Mads Hermansen fór af velli og Danny Ward kom í hans stað. Eftir það opnuðust allar flóðgáttir.
Fyrstu tvær snertingar Ward í leiknum voru þegar hann þurfti að tína boltann úr marki sínu. Þetta gerðist innan fimm mínútna í seinni hálfleik, þegar Guimarães skoraði skallamark af stuttu færi eftir vel útfærða aukaspyrnu og skömmu síðar bætti Alexander Isak við marki með skalla eftir sendingu frá Lewis Hall sem fór af varnarmanninum Conor Coady.
Murphy bætti síðan við fjórða markinu fyrir Newcastle og sínu öðru marki í leiknum þegar hann tók kraftmikið skot eftir að hafa fengið sendingu frá Isak í teignum.
Newcastle hefði getað bætt enn meira við í lokin, þar sem Sandro Tonali skaut í hliðarnetið og Harvey Barnes skaut rétt framhjá fjærstönginni. Lokatölur urðu því 4:0. Í leiknum átti Newcastle alls 27 skottilraunir, þar af 11 á markið.
Með sigrinum fer Newcastle upp í 11. sæti deildinnar með 23 stig og jafnaði þar með Brentford að stigum. Þetta var aðeins þriðji sigur Newcastle í ensku úrvalsdeildinni síðan um miðjan september, en svo jöfn er baráttan um miðja deild að Newcastle er aðeins fjórum stigum á eftir Manchester City, sem er í fjórða sæti.
Næsti leikur Newcastle er gegn Brentford í enska deildabikarnum á miðvikudag og næsti leikur í deildinni er við Ipswich á útivelli næsta laugardag.
Einkunnir BBC Sport
A. Isak 8.60 - maður leiksins, A. Gordon 8.56, J. Murphy 8.51, L. Hall 8.48, S. Tonali 8.32, Bruno Guimarães 8.24, T. Livramento 7.93, D. Burn 7.93, Joelinton 7.88, F. Schär 7.79, M. Dúbravka 7.50, H. Barnes 7.33, K. Trippier 7.21, J. Willock 7.06, W. Osula 7.04, S. Longstaff 6.70.