Öflugur sigur, markaðurinn og metnaðarfull framtíðarsýn
Leikmenn Newcaste fagna hér marki í leiknum gegn Leicester.
Newcastle United tryggði sér glæsilegan 4:0-heimasigur gegn Leicester City um nýliðna helgi. Á sama tíma glímir liðið við meiðsli lykilmanna, en stórar áætlanir eru í burðarliðnum sem gætu gert St James’ Park-leikvanginn að einum stærsta og mest spennandi leikvangi Evrópu.
Öflugur stórsigur
Newcastle United svaraði 4:2 tapinu gegn Brentford um þarsíðustu helgi með því að vinna 4:0-heimasigur á Leicester City um nýliðna helgi og fær nú tækifæri til þess að hefna sín á Brentford á St James’ Park á miðvikudaginn kemur þegar liðin munu mætast í átta liða úrslitum enska deildabikarsins.
Frammistaðan gegn Leicester sýndi að liðið getur komið sterkt til baka. Liðið spilaði af miklum krafti bæði í vörn og sókn og markaskorunin var dreifð innan liðsins, þar sem Jacob Murphy, Bruno Guimarães og Alexander Isak skoruðu, áður en Murphy bætti við sínu öðru marki í leiknum til að innsigla sannfærandi sigur.
Eddie Howe, stjóri Newcastle, var að vonum ánægður með sigur sinna manna. „Þetta var góð frammistaða. Fyrsta markið skipti miklu máli. Það tókst vel að útfæra föstu leikatriðin til að koma okkur af stað og annað markið var einnig mikilvægt, því það gaf okkur meira svigrúm til að spila okkar leik. Við erum svekktir yfir því að hafa ekki sýnt þetta oftar á leiktíðinni. Þetta var ein af okkar betri frammistöðum,“ sagði Howe eftir leikinn.
Meiðsli og félagaskiptaglugginn opnar á ný
Eftir leikinn við Leicester staðfesti Howe að Nick Pope yrði frá í mánuð vegna meiðsla á hné. „Pope fór til sérfræðings og niðurstaðan er sú að hann verður frá í um það bil fjórar vikur. Þetta er mjög óheppilegt fyrir bæði okkur og Pope, þar sem við eigum marga leiki á næstu vikum,“ sagði Howe.
Þá verður Callum Wilson frá keppni í tvo mánuði vegna tognunar í lærvöðva en hann varð fyrir þeim meiðslum í tapinu gegn Brentford. Framherjinn, sem nýverið sneri aftur eftir löng meiðsli, hefur aðeins fjórum sinnum komið inn á sem varamaður á leiktíðinni. Wilson rennur út á samningi eftir leiktíðina og talið er mögulegt að hann yfirgefi Newcastle á frjálsri sölu næsta sumar.
Callum Wilson er aftur frá vegna meiðsla.
Nokkrir leikmenn hafa verið orðaðir við Newcastle síðustu daga, en helst má nefna hægri kantmennina Johan Bakayoko (PSV), Maghnes Akliouche (Monaco) og Mohammed Kudus (West Ham), en reiknað er með því að Newcastle verði ekki stórtækt á leikmannamarkaðnum í næsta mánuði, ef marka má Howe. „Ég endurtek þetta stöðugt um janúarmánuð – ég á ekki von á að við getum verið mjög virkir á markaðnum,“ sagði Howe.
„Eins og staðan er núna, þá geta hlutirnir breyst. Ef við seljum leikmenn, þá er það allt annað mál. En ef við seljum ekki leikmenn, myndi ég búast við að það yrði rólegt hjá okkur. Auðvitað hafa PSR-fjárhagsreglurnar haft áhrif á félagið og hindrað okkur í að ná þeim árangri og markmiðum sem við vildum ná eins hratt og við vonuðumst til. Það hefur tafist á ýmsan hátt,“ sagði Howe ennfremur.
Umboðsmaður slær á sögusagnir
Umboðsmaður Sandro Tonali hefur vísað á bug sögusögnum um að leikmaðurinn sé ósáttur hjá Newcastle og íhugi að snúa aftur til Ítalíu í næsta mánuði.
Tonali sneri aftur í september eftir tíu mánaða bann vegna veðmála, sem hafði mikil áhrif á hans fyrsta tímabil eftir að hann gekk til liðs við Newcastle frá AC Milan fyrir fúlgufjár.
Þrátt fyrir að hafa sýnt góðar frammistöður nýlega hefur Tonali átt í erfiðleikum með að tryggja sér fast sæti í byrjunarliðinu. Þetta hefur vakið vangaveltur í heimalandi hans um möguleg félagaskipti aftur til AC Milan og að Newcastle gæti viljað losa sig við hann vegna fjárhagsreglna ensku úrvalsdeildarinnar.
Umboðsmaður Tonali hafnaði hins vegar þessum vangaveltum og sagði: „Sandro hefur enga áætlun um að snúa aftur til Ítalíu. Hann er ánægður hjá Newcastle, nýtur þess að spila í bestu deild heims og er mikils metinn af stuðningsmönnum liðsins, sem hafa stutt hann í gegnum allt.“
Áætlanir um breytingar á Gallowgate End-stúkunni
Gallowgate End-stúkan, þar sem hörðustu stuðningsmenn Newcastle sitja.
Stórar áætlanir eru uppi um endurnýjun á Gallowgate End-stúkunni á St James’ Park, þar sem byggð yrði ný stúka í anda „Gula veggjarins“ hjá þýska stórliðinu Borussia Dortmund. Verði þessar áætlanir að veruleika gæti áhorfendafjöldi á St James’ Park aukist úr 52.000 í um 65.000 sæti. Ákvörðun um hvort völlurinn verði stækkaður eða hvort byggður verði nýr leikvangur verður tekin á næsta ári.
Hin nýja stúka yrði meðal stærstu áhorfendastúkum Evrópu og gæti orðið sambærileg og stúkan í Dortmund eða 17.500 sæta suðurstúkan á leikvangi Tottenham Hotspur, þar sem hörðustu stuðningsmennirnir eru með sæti á vellinum.
Brad Miller, rekstarstjóri Newcastle, hefur lýst því yfir að fyrsti valkostur félagsins sé að stækka og endurbæta St James’ Park, þar sem leikvangurinn sé á táknrænum stað með einstaka stemningu sem veitir liðinu mikið forskot. Hann segir þó að nýr leikvangur gæti skilað tvöfalt meiri tekjum og rúmað fleiri áhorfendur.