Newcastle sneri taflinu við
Newcastle United vann góðan 3:1-útisigur á Nottingham Forest í 11. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag, þrátt fyrir að heimamenn hafi komist yfir snemma leiks.
Það var Joe Willock sem átti fyrstu marktilraunina í leiknum á 11. mínútu þegar hann reyndi skot sem fór framhjá vinstra megin.
Eftir um 20. mínútna leik gerðist Joe Willock brotlegur hægra megin við vítateiginn. Anthony Elanga tók aukaspyrnuna fyrir Forest og endaði spyrnan á miðvörðinn Murillo sem skallaði síðan boltann í netið, 1:0. Newcastle hefði þarna getað gert mun betur í vörninni.
Matz Sels, markmaður Forest og fyrrum markmaður Newcastle, þurfti nokkrum sinnum að taka á honum stóra sínum í leiknum. Hann varði vel skot frá Bruno Guimaraes á 24. mínútu leiksins.
Leikmenn Newcastle og stuðningsmenn liðsins voru langt frá því að vera sáttir með dómgæsluna í fyrri hálfleiknum. Fyrirliðinn Ryan Yates slapp nokkrum sinnum með skrekkinn og var heppinn að fá að klára leikinn. Staðan í leikhléi var 1:0, Nottingham Forest í vil.
Bruno Guimaraes átti í upphafi seinni hálfleik öflugt utanfótarskot sem fór rétt framhjá markinu.
Það dró svo til tíðinda fyrir Newcastle á 54. mínútu. Boltinn datt fyrir Alexander Isak í teignum eftir hornspyrnu og honum tókst að þruma boltanum í stögina og inn, 1:1. Isak hefur nú skorað fjögur mörk í síðustu fjórum leikjum.
Nokkrum mínútum síðar átti Isak gott skot sem fór rétt framhjá markinu eftir góðan undirbúning frá Joe Willock og Anthony Gordon.
Joelinton kom svo Newcastle yfir á 72. mínútu, 2:1, þegar hann átti laglegt skot með vinstri fæti sem fór í stöngina og inn. Glæsilegt mark hjá Brasilíumanninum sem átti frábæran leik í dag.
Varamaðurinn Harvey Barnes innsiglaði síðan sigurinn fyrir Newcastle með marki á 83. mínútu eftir sendingu frá Sandro Tonali, sem kom einnig inn á sem varamaður.
Þar við sat í markaskorun í leiknum og urðu lokatölur 3:1 fyrir Newcastle. Með sigrinum fer Newcastle upp í 8. sæti deildarinnar og er með 18 stig. Framundan er landsleikjahlé en næsti leikur liðsins er gegn West Ham á heimavelli þann 25. nóvember.
Einkunnir Sky Sports:
Newcastle: Pope (7), Livramento (7), Schar (6), Burn (6), Hal (7), Longstaff (6), Guimaraes (7), Willock (8), Gordon (6), Isak (7), Joelinton (9).
Varamenn: Tonali (6), Barnes (7), Osula (n/a).
Maður leiksins: Joelinton (Newcastle)