Newcastle mætir Ipswich
Newcastle United fer í dag í heimsókn á Portman Road þar sem Ipswich leikur sína heimaleiki í ensku úrvalsdeildinni. Leikurinn hefst klukkan 15:00.
Ipswich hefur átt erfitt uppdráttar á heimavelli á þessari leiktíð og leitar enn að fyrsta heimasigrinum. Ipswich hefur aðeins unnið tvo leiki í deildinni það sem af er leiktíð en liðið fagnaði um síðustu helgi 2:1-útisigri gegn Wolves í fallbaráttuslag. Ipswich er með 12 stig og situr í fallsæti, 18. sæti, eftir fyrstu 16 umferðirnar.
Ipswich glímir við nokkrar áskoranir í leikmannahópi sínum. Framherjinn Liam Delap, lykilleikmaður liðsins, verður í leikbanni eftir að hafa fengið sitt fimmta gula spjald gegn Wolves. Delap hefur verið drjúgur í markaskorun fyrir Ipswich en hann hefur skorað 6 af 16 mörkum liðsins á leiktíðinni. George Hirst og Axel Tuanzebe verða svo frá vegna meiðsla.
Hjá Newcastle verður Joelinton í leikbanni en Sean Longstaff snýr aftur. Emil Krafth, Jamaal Lascelles, Nick Pope og Callum Wilson eru á meiðslalistanum. Sven Botman er nálægt því að koma aftur inn í leikmannahópinn eftir langvarandi hnémeiðsli en leikurinn kemur of snemma fyrir hann.
Newcastle hefur átt góðu gengi að fagna gegn Ipswich í ensku úrvalsdeildinni, með aðeins eitt tap í átta leikjum. Eina tapið var á Portman Road árið 2001. Ipswich lék síðustu ár í ensku B-deildinni og í C-deildinni og lék tvívegis við Newcastle leiktíðina 2016/17 í ensku B-deildinni. Newcastle hafði þá betur á heimavelli, 3:0, en laut í lægra haldi á útivelli, 3:1.
Newcastle hefur nú unnið tvo leiki í röð og skoraði alls sjö mörk í þeim leikjum. Alexander Isak hefur reynst ótrúlega hættulegur gegn nýliðum en hann hefur skorað 10 mörk og lagt upp tvö önnur til viðbótar í 11 leikjum gegn nýliðum síðan hann gekk til liðs við Newcastle. Þá hefur Isak skorað alls 20 mörk í deildinni á árinu 2024.
Líklegt byrjunarlið Ipswich (4-2-3-1): Muric; Clarke, O'Shea, Burgess, Davis; Morsy, Cajuste; Burns, Chaplin, Hutchinson; Al Hamadi.