Newcastle deildabikarmeistari eftir magnaðan sigur á Liverpool
Newcastle United er enskur deildabikarmeistari árið 2025 eftir 2:1 sigur á Liverpool í úrslitaleik á Wembley-leikvanginum í gær. Er titillinn sá fyrsti hjá liðinu síðan 1955 og því sjötíu ára bið dyggra stuðningsmanna félagsins loks á enda.
Stuðningsmenn Newcastle fylltu Wembley og gerðu sig vel sýnilega í London um helgina – á stað þar sem Newcastle hefur ekki enn tapað á árinu, með sigrum á Tottenham, Arsenal og West Ham.
Newcastle byrjaði leikinn af krafti. Jacob Murphy fann Harvey Barnes í teignum en sá síðarnefndi náði ekki að nýta færið sitt. Sandro Tonali átti einnig gott skot sem fór rétt framhjá.
Newcastle var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik. Kieran Trippier fékk gott færi eftir að Isak hafði skallað á markið, en skot hans var varið. Upp úr hornspyrnu fékk Bruno Guimarães færi eftir skalla Burn en markvörður Liverpool, Caoimhín Kelleher, greip boltann.
En svo kom augnablikið sem Newcastle hafði beðið eftir. Rétt fyrir hálfleik skallaði Ibrahima Konaté skot frá Barnes í horn. Trippier tók hornspyrnuna og inn á teiginn kom Dan Burn á fullri ferð, um 12 metra frá marki. Skallinn var fullkominn – niðri í vinstra hornið. Ólýsanlegur fögnuður stuðningsmanna fylgdi í kjölfarið. Fyrsta mark félagsins á Wembley í 26 ár. Stór stund.
Liverpool reyndi að svara í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar Diogo Jota átti skottilraun eftir sendingu frá Luis Díaz en skotið fór framhjá.
Liverpool-liðið kom sterkt inn í seinni hálfleikinn, en Newcastle varðist vel. Joelinton, baráttuglaður sem alltaf, stoppaði Díaz í tæka tíð þegar hann reyndi að skjóta á markið.
Leikmenn Newcastle voru hvergi nærri hættir því Alexander Isak skoraði úr frákasti. Markið var þó dæmt af vegna rangstöðu Guimarães.
Sænski sóknarmaðurinn þurfti þó ekki að bíða lengi eftir sínu stóra augnabliki. Á 52. mínútu sendi Tino Livramento háa fyrirgjöf á fjærstöng. Murphy skallaði boltann niður í fæturna á Isak, sem kláraði örugglega. Þetta var hans 58. mark fyrir félagið.
Liverpool gat ekki svarað
Liverpool reyndi allt til að koma til baka. Darwin Núñez og Curtis Jones komu inn á og sá síðarnefndi átti þrumuskot sem Nick Pope varði meistaralega.
Joelinton kom síðan í veg fyrir skot frá Andy Robertson. Newcastle hefði hæglega getað bætt við marki þegar Barnes sendi fyrir á Isak, sem átti frábært skot en Kelleher varði með stórbrotnum hætti.
Harvey Barnes fékk síðan gott tækifæri en ákvað að senda boltann frá sér til Murphy sem átti skot rétt framhjá.
Arne Slot gerði fleiri breyttingar á liði sínu með því að setja Cody Gakpo, Chiesa og Harvey Elliott inn á. Liverpool átti hins vegar erfitt með að skapa sér færi.
Liverpool var með yfirhöndina síðustu tuttugu mínúturnar en fór illa að ráði sínu. Chiesa tókst þó að minnka muninn í uppbótartíma með hnitmiðuðu skoti.
En það skipti engu. Þessi dagur tilheyrði Newcastle United. Þvílíkur dagur.
Innilega til hamingju öllsömul. Þetta var verðskuldað.