Loks­ins komið að stóru stund­inni

Kæru stuðningsmenn Newcastle United – það er komið að stóru stund­inni. Liðið okkar er á leið í sinn annan úrslitaleik á tveimur árum og stendur frammi fyrir einstöku tækifæri til að enda um 70 ára bikarþurrð. Nú er kominn tími til að skrifa nýjan kafla í sögu Newcastle United með því að sigra Liverpool í úrslitum enska deildabikarsins á Wembley-leikvanginum í dag. Leikurinn hefst klukkan 16:30.

Þetta hefur verið nokkuð stormasamt tímabil og síðasta vika hefur ekki gert hlutina auðveldari, en nú er tími til að horfa fram á veginn. Það er bikar í boði og liðið ætlar sér að berjast fyrir honum!

Baráttan að úrslitaleiknum

Vegferð liðsins í þessari keppni hefur ekki verið auðveld. Chelsea, Nottingham Forest, Brentford og Arsenal hafa öll verið lögð að velli og liðið hefur sýnt styrk sinn og karakter í hverjum einasta leik. Nú bíður okkar stærsta áskorunin hingað til – Liverpool, besta liðið á Englandi um þessar mundir.

Þrátt fyrir nokkur áföll í aðdraganda leiksins, þar sem við höfum misst lykilmenn eins og Anthony Gordon, Lewis Hall og Sven Botman, þá er þetta lið sem gefst aldrei upp. Liðið hefur staðið frammi fyrir áskorunum áður og sannað að það er tilbúið að berjast til síðasta blóðdropa.

Hvernig getur Newcastle unnið þennan leik?

Eddie Howe, stjóri Newcastle, hefur enn sterkan leikmannahóp og mun leggja upp leikinn af skynsemi. Liðið hefur áður sannað að það getur staðið í bestu liðum Englands og Evrópu og á stórum leikvangi eins og Wembley getur beinskeyttur sóknarleikur liðsins reynst banvænn.

Liverpool-liðið tapaði í vítaspyrnukeppni fyrir PSG í miðri viku eftir framlengdan leik í Meistaradeildinni og það er því meiri þreyta í þeirra leikmannahópi. Mestu áhyggjurnar fyrir Arne Slot, stjóra Liverpool, snúa að hægri bakvarðarstöðunni. Trent Alexander-Arnold meiddist gegn PSG og Joe Gomez og Conor Bradley eru einnig frá.

Það þýðir að enginn reyndur hægri bakvörður er tiltækur hjá Liverpool. Líklegast er að hinn ungi Jarell Quansah þurfi að leysa stöðuna, en Newcastle mun án efa reyna að nýta sér það.

Baráttujaxlarnir Bruno Guimarães, Sandro Tonali og Joelinton þurfa að eiga frábæran leik til að sigra miðjuslaginn. Þeir þurfa að finna leið til að stöðva spilamennsku Liverpool, sem hefur átt eina bestu miðjuna á þessari leiktíð. Ryan Gravenberch, sem spilar djúpt á vellinum, hefur bætt sig gríðarlega undir stjórn Slot. Dominik Szoboszlai er óþreytandi á miðsvæðinu og Alexis Mac Allister er ekki smeykur við að fara í tæklingar og brýtur oft af sér.

Þegar liðin mættust í síðasta mánuði var Eddie Howe, stjóri Newcastle, án bæði Joelinton og Alexander Isak vegna meiðsla, en þeir eru hins vegar báðir klárir í slaginn núna.

Vegna meiðsla lykilvarnarmanna eins og Lewis Hall gæti Newcastle þurft að aðlaga varnaruppstillingu sína. Tino Livramento verður í vinstri bakvarðarstöðunni og Joelinton á miðjunni gæti þurft að hjálpa mikið til í varnarvinnunni gegn hættulegum leikmanni eins og Mohamed Salah sem verður á hægri kantinum.

Fjarvera Anthony Gordon vegna leikbanns er stórt áfall. Harvey Barnes, sem sýndi góð tilþrif í sigrinum á West Ham í vikunni, þarf að fylla skarð hans. Howe gæti jafnvel stillt Joe Willock upp á vinstri kantinum. Willock var frábær í undanúrslitaleiknum gegn Arsenal þegar hann lék í stað Guimarães.

Liverpool mun að öllum líkindum vilja stjórna leiknum og þess vegna mun Howe vilja nýta hraða til að beita skyndisóknum. Í Isak hefur hann hættulegasta framherjann í öllum heiminum um þessar mundir en hann er líklega með þeim fáu sem getur unnið kapphlaupið við hina stórkostlegu miðverði hjá Liverpool, Virgil van Dijk og Ibrahima Konaté. Jacob Murphy er einnig mjög fljótur á hægri kantinum og er líklegur til að ógna með hraða sínum og krafti.

Að halda uppi aga í leikskipulagi verður lykilatriði í leiknum. Sérstaklega mun einbeiting í skyndisóknum og varnarvinnu skipta miklu máli til að verjast hraðri sóknaruppbyggingu Liverpool-liðsins. Föstu leikatriðin gætu einnig skipt miklu máli, en Dan Burn, Fabian Schar og Joelinton eru allir sterkir í loftinu og gætu valdið usla í teignum.

Áfram Newcastle United - titilinn heim!

Líklegt byrjunarlið Liverpool, 4-3-3: Kelleher – Quansah, Konate, Van Dijk, Roberton – Szoboszlai, Gravenberch, Mac Allister – Salah, Diaz, Gakpo.

Líklegt byrjunarlið Newcastle, 4-3-3:

Previous
Previous

Newcastle deilda­bikar­meist­ari eftir magnaðan sigur á Liverpool

Next
Next

Glæsilegur viðburður á Ölver