Meiðsli, slúðrið og vallarmál
Stefnt verður að því að fara reglulega yfir helstu fréttir tengdar Newcastle United. Hér að neðan er stiklað á stóru yfir það helsta á síðustu dögum.
Eftir 2:0 tap gegn West Ham á heimavelli í fyrradag, lýsti Eddie Howe, stjóri Newcastle, yfir áhyggjum vegna frammistöðu liðsins og meiðsla leikmanna. „Við byrjuðum vel en gáfum ódýr mörk,“ sagði Howe og benti á að fyrra markið snemma í leiknum hafi gert verkefnið erfiðara. Hann sagðist ánægður með fyrstu 60 mínúturnar í leiknum en viðurkenndi að liðið missti taktinn og sjálfstraustið eftir seinna markið. Howe staðfesti að Joe Willock og Bruno Guimaraes hefðu orðið fyrir meiðslum í leiknum og vonaðist til að þau væru ekki alvarleg.
Jákvæðu fréttirnar eru hins vegar þær að Callum Wilson og Kieran Trippier sneru til baka og komu báðir inn á sem varamenn eftir löng meiðsli. Hinn ungi og efnilegi Lewis Miley er einnig búinn að jafna sig á meiðslum og gæti byrjað að leika aftur með liðinu á næstunni.
Opnað verður fyrir félagaskipti aftur eftir rúman mánuð og ýmsar fréttir hafa verið skrifaðar í enskum miðlum á síðustu vikum. Newcastle er sagt áhugasamt um að fá Antoine Semenyo, framherja Bournemouth, til liðs við sig. Semenyo, sem getur leikið víða í sókninni, hefur staðið sig vel hjá Bournemouth og er einnig orðaður við stórlið, eins og Liverpool. Newcastle er einnig sagt áhugasamt um Bryan Mbeumo, sóknarmann Brentford, sem er að slá í gegn þessa stundina. Newcastle hefur líka áhuga á franska framherjanum Randal Kolo Muani sem leikur með PSG og gæti verið fáanlegur á láni. Þá er ólíklegt að Newcastle reyni aftur að kaupa Marc Guehi, miðvörð Crystal Palace, þar sem Sven Botman er við það að snúa til baka úr löngum meiðslum.
Samt sem áður er talið ólíklegt að Newcastle geri kaup í janúarglugganum nema einhver leikmaður yfirgefi leikmannahópinn. Alexander Isak var nú á dögunum orðaður við Chelsea, sem er sagt þurfa að greiða yfir 115 milljónir punda fyrir sænska framherjann. Arsenal hefur einnig mikinn áhuga á að fá Isak í sínar raðir. Það eru þó litlar líkur á því að hann rói á önnur mið á næstunni.
Bruno Guimaraes, fyrirliði Newcastle, svaraði þá sögusögnum um áhuga Manchester City um daginn. Hann undirstrikaði að hann væri stoltur af hlutverki sínu hjá Newcastle og ánægður með lífið þar. „Að vera fyrirliði Newcastle og spila í ensku úrvalsdeildinni er draumur sem hefur ræst,“ sagði hann og bætti við að áhugi frá Pep Guardiola væri mikil viðurkenning fyrir sig.
Stærsta verkefni félagsins utan vallar er þó tengt framtíð St James’ Park. Brad Miller, rekstarstjóri Newcastle, greindi frá því að félagið væri að meta tvo kosti; umfangsmikla uppbyggingu á St James’ Park eða byggingu nýs leikvangs. Hann benti á að nýr völlur gæti tvöfaldað tekjur félagsins og boðið upp á fleiri sæti, en sagði að St James’ Park leikvangurinn hefði einstaka sögu og væri mjög mikilvægur fyrir stuðningsmenn „Við viljum taka upplýsta ákvörðun í samráði við stuðningsmenn og tryggja að hún þjóni langtíma hagsmunum félagsins,“ sagði Miller.
Það er ljóst að margt er á döfinni hjá Newcastle, bæði innan vallar sem utan, með ákvörðunum framundan í leikmannamálum, vallarmálum og varðandi framtíðarstefnu félagsins.
Næsti leikur Newcastle er gegn Crystal Palace um næstu helgi og þar fær Eddie Howe gott tækifæri til að koma liðinu aftur á réttan kjöl.