Leik frestað vegna slæmra vallarskilyrða
Heimavöllur AFC Wimbledon.
Leik Newcastle United og AFC Wimbledon í enska deildabikarnum sem átti að fara fram annað kvöld hefur verið frestað.
Heimavöllur AFC Wimbledon hefur verið metinn óleikhæfur en mikil rigning hefur verið í Bretlandi síðustu daga og er völlurinn allur á floti og í slæmu ásigkomulagi.
Nýr leiktími hefur verið fundinn og munu liðin mætast þann 1. október næstkomandi á St James’ Park.
AFC Wimbledon, sem leikur í ensku D-deildinni, sigraði Bromley og Ipswich á leið sinni í þriðju umferð enska deildabikarsins. Newcastle United hafði betur gegn Nottingham Forest í vítaspyrnukeppni í annarri umferð.
Næsti leikur Newcastle United er heimaleikur gegn Manchester City þann 28. september í ensku úrvalsdeildinni.