Jafntefli niðurstaðan í ótrúlegum leik

Newcastle United og Liverpool skildu jöfn, 3:3, í ótrúlegum leik á St James‘ Park í 14. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld.

Fyrri hálfleikurinn var fjörugur og Newcastle byrjaði talsvert betur en Liverpool. Sandro Tonali átti fyrstu skottilraun leiksins strax á 2. mínútu eftir góðan undirbúning frá Anthony Gordon en Kelleher gerði vel og sá við Tonali.

Korter var búið af leiknum þegar gestirnir frá Liverpool áttu tvær hættulega tilraunir með stuttu millibili. Mac Allister var þar á ferðinni og átti gott skot sem Pope varði vel en stuttu síðar átti Mac Allister skot sem fór í utanverða stöngina.

Eftir um tuttugu mínútna leik hlóð Jacob Murphy í öflugt skot eftir góðan undirbúning frá Alexander Isak en skotið fór í utanverða stöngina. Aðeins mínútu síðar var Bruno Guimarães nálægt því að skora en Kell­eher varði vel í markinu.

Á 35. mínútu komst Newcastle yfir þegar Alexander Isak skoraði glæsilegt mark. Guimarães átti glæsilega stungusendingu inn fyrir vörn Liverpool og Isak náði að halda Van Dijk frá sér og átti mikinn þrumufleyg fyrir utan teig sem Kelleher kom eng­um vörn­um við, 1:0.

Nokkrum mínútum eftir markið fékk Anthony Gordon dauðafæri til að tvö­falda for­yst­una fyrir Newcastle. Gordon var kominn einn í gegn en skaut beint á Kelleher.

Newcastle leiddi verðskuldað með einu marki gegn engu í leik­hléi.

Eftir aðeins fimm mínútur í seinni hálfleik tókst gestunum að jafna metin. Liverpool náði að refsa Newcastle eftir mistök á miðsvæðinu. Liverpool komst í skyndisókn upp völlinn hægra megin, þar sem Salah lagði boltann fyrir á Curtis Jones sem náði að koma boltanum í netið, 1:1.

Newcastle komst aftur yfir eftir um klukkutíma leik þegar Anthony Gordon skoraði eftir skyndisókn. Liverpool gerði klaufaleg mistök á miðsvæðinu og Newcastle nýtti sér það. Tonali sendi góða sendingu á Isak sem náði að snúa sér og senda boltann inn fyrir vörn Liverpool. Gordon tók við boltanum, lagði hann fyrir sig og átti skot sem endaði í netinu, 2:1.

Nick Pope í marki Newcastle kom síðan í veg fyrir mark á 66. mínútu þegar hann varði skallatilraun Curtis Jones af stuttu færi.

Liverpool tókst aftur að jafna metin á 68. mínútu. Leikmenn Liverpool keyrðu aftur upp hægri kantinn sem endaði með því að Salah renndi boltanaum snyrtilega í neðra vinstra hornið, 2:2.

Anthony Gordon átti glæsilega sendingu inn fyrir vörn Liverpool á 73. mínútu á Jacob Murphy sem fór illa að ráði sínu og átti skot langt framhjá markinu.

Liverpool hélt áfram að sækja að marki Newcastle og Salah var mjög nálægt því að skora á 82. mínútu þegar skot hans fór í slána. Honum tókst hins vegar að skora aðeins mínútu síðar. Salah fékk þá góða sendingu frá Alexander-Arnold og tók við boltanum, lagði hann vel fyrir sig og setti hann í neðra vinstra hornið, 3:2.

Stefndi allt í að markið væri sig­ur­mark, en svo var al­deil­is ekki. Newcastle fékk aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Liverpool sem Bruno Guimarães tók og sendi boltann inn í teiginn. Caoimhín Kelleher í markinu ákvað að láta boltann fara en Fabian Schar var á réttum stað og náði að pota boltanum í netið úr ótrúlega þröngu færi, 3:3.

Jafntefli reyndist því niðurstaðan í mögnuðum leik. Newcastle er nú komið upp í 10. sæti með 20 stig. Næsti leikur liðsins er gegn Brentford á útivelli næsta laugardag.

Einkunnir Sky Sports

Newcastle: Pope (7), Hall (7), Schar (7), Burn (6), Livramento (7), Bruno (7), Tonali (7), Joelinton (6), Isak (8), Gordon (7), Murphy (6).

Varamenn: Barnes (n/a), Wilson (n/a), Longstaff (n/a), Willock (n/a).

Maður leiksins: Mohamed Salah.

Svipmyndir

Previous
Previous

Newcastle fer aftur til Lundúna

Next
Next

Newcastle mætir toppliðinu