Jafntefli gegn Englandsmeisturum
Newcastle United tók í fyrradag á móti Englandsmeisturum Manchester City í sjöttu umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Liðin skildu jöfn 1:1.
Eddie Howe, stjóri Newcastle United, gerði nokkrar breytingar á byrjunarliðinu frá síðasta leik gegn Fulham. Sandro Tonali var loks í byrjunarliðinu, Lewis Hall kom inn fyrir Lloyd Kelly og Jacob Murpy kom inn fyrir Alexander Isak, sem var fjarverandi vegna meiðsla.
Manchester City var án lykilleikmanna í leiknum en þeir Kevin De Bruyne og Rodri voru frá vegna meiðsla. Gestirnir frá Manchester komust yfir með marki frá Josko Gvardiol á 35. mínútu leiksins.
Í lok fyrri hálfleiks átti Joelinton gott skot með vinstri fæti á mark Manchester City en Ederson í markinu gerði vel og varði afar vel frá honum. Staðan í hálfleik var 1:0, Manchester City í vil.
Snemma í seinni hálfleik, á 56. mínútu, dró heldur betur til tíðinda. Anthony Gordon fékk góða sendingu frá Bruno Guimaraes og slapp einn í gegn, fór framhjá Ederson sem braut á honum og var vítaspyrna dæmd. Gordon fór sjálfur á vítapunktinn og skoraði af öryggi, 1:1.
Ekki voru fleiri mörk skoruð í leiknum og urðu lokatölur 1:1. Newcastle United er nú með 11 stig og situr í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir sex umferðir. Næsti leikur liðsins er á morgun þegar enska D-deildarliðið Wimbledon kemur í heimsókn á St James’ Park í enska deildabikarnum.
Einkunnir frá Sky Sports:
Newcastle: Pope (7), Trippier (7), Schar (7), Burn (6), Hall (6), Tonali (7), Guimaraes (6), Joelinton (6), Murphy (6), Barnes (6), Gordon (7).
Varamenn: Willock (6), Longstaff (6), Livramento (6)
Man City: Ederson (5), Walker (6), Dias (6), Akanji (7), Gvardiol (7), Lewis (7), Kovacic (7), Bernardo Silva (6), Gundogan (5), Grealish (7), Haaland (6).
Varamenn: Foden (6), Savinho (6), Doku (6)
Maður leiksins: Jack Grealish