Hefur farið á níu leiki á leiktíðinni og lét sig ekki vanta á úrslitaleiknum
Jón Þór Kristinsson á St James’ Park.
Jón Þór Kristinsson, dyggur stuðningsmaður Newcastle United, hefur farið á alls níu leiki með liðinu á yfirstandandi leiktíð. Jón Þór lét sig ekki vanta á úrslitaleiknum á Wembley-leikvanginum og náði að næla sér í miða rétt fyrir leikinn.
„Stemningin fyrir úrslitaleikinn var ólýsanleg. Ég sá ekki Liverpool stuðningsmann alla helgina. Það var endalaust af stuðningsmönnum Newcastle um alla London-borg og þeir hættu ekki að streyma um borgina. Þetta var sturluð stemning, sérstaklega á laugardeginum þar sem stuðningsmennirnir voru að syngja og tralla í Covent Garden í London. Ég mun held ég aldrei gleyma þessari helgi,“ sagði Jón Þór.
Jón Þór hefur haldið með Newcastle United frá árinu 2013 og hefur í heildina farið á 27 leiki með liðinu, en tuttugu af þeim hafa verið á St James’ Park.
Jón Þór sagði að eftirminnilegasti leikurinn, að undanskildum úrslitaleiknum við Liverpool, hafi verið sigurleikinn gegn PSG í Meistaradeildinnni fyrir tveimur árum þegar Newcastle vann 4:1 sigur á St James Park.
Aðspurður um eftirminnilega leiki sem hann hefur séð á þessari leiktíð sagði Jón Þór að sigrarnir gegn Tottenham og Wolves í september hafi staðið upp úr.
Jón Þór hefur þá tvisvar verið í útivallarstúku með hörðustu stuðningsmönnum liðsins, á Craven Cottage og Emirates-leikvanginum.
Jón Þór er hvergi nærri hættur að fara á leiki en næst verður það heimaleikur gegn Manchester United þann 13. apríl næstkomandi.
Stuðningsmenn Newcaste voru út um alla London-borg.
Fan Zone fyrir stuðningsmenn Newcastle í London.
Á úrslitaleiknum.