Fjögur mörk á 11 mínútum

Newcastle United hafði betur gegn Nottingham Forest, 4:3, í spennandi leik í ensku úrvalsdeildinni í dag. Með sigrinum færðist Newcastle upp í fimmta sæti deildarinnar með 44 stig.

Eddie Howe gerði þrjár breytingar á byrjunarliðinu frá leiknum gegn Manchester City um síðustu helgi. Lewis Miley kom inn í liðið ásamt Tino Livramento og Nick Pope.

Þetta var fyrsti deildarleikurinn hjá Pope frá því í desember, en enski markvörðurinn þurfti að sækja boltann í netið eftir aðeins sex mínútur. Nottingham Forest komst yfir snemma leiks með góðu langskoti frá Callum Hudson-Odoi, sem nýtti sér mistök Newcastle eftir misheppnað innkast.

Jöfnunarmarkið kom svo á 23. mínútu. Lewis Hall tók aukaspyrnu sem Bruno Guimarães skallaði áfram og Joe Willock hélt boltanum inn á vellinum sem varð til þess að Hall fékk annað tækifæri til að senda fyrir. Miley tók boltann niður og þrumaði honum í netið með vinstri fæti sínum, 1:1.

Aðeins tveimur mínútum síðar komst Newcastle yfir. Hudson-Odoi náði skoti á markið en Pope varði og hóf skyndisókn. Hall átti fyrirgjöf sem hafði viðkomu í varnarmanni og boltinn datt fyrir fætur Jacob Murphy sem kom boltanum í netið, 2:1.

Hall kom enn og aftur við sögu þegar Newcastle bætti við þriðja markinu, þar sem fyrirgjöf hans frá vinstri fór í höndina á varnarmanni Forest í vítateignum. Eftir skoðun í VAR benti dómarinn á vítapunktinn. Alexander Isak fór á punktinn og skoraði, 3:1. Matz Sels í markinu var nálægt því að verja vítaspyrnuna.

Isak hélt uppteknum hætti og fagnaði aftur nokkrum sekúndum síðar. Joe Willock renndi boltanum á Isak sem tókst að skora sitt fimmtugasta deildarmark fyrir Newcastle. Staðan því orðin 4:1.

Murphy var nálægt því að bæta við öðru marki eftir glæsilega sókn rétt undir lok fyrri hálfleiks og Fabian Schär átti svo skalla í stöng eftir hornspyrnu frá Hall í upphafi seinni hálfleiks.

Newcastle-liðið slakaði á klónni í seinni hálfleikn­um og Forest tókst að skora tvö mörk. Nikola Milenkovic skoraði fyrir Forest á 63. mínútu þegar hann nýtti sér mistök Newcastle í vörninni, áður en Ryan Yates minnkaði muninn í eitt mark á síðustu mínútu leiksins þegar hann skoraði af stuttu færi upp úr hornspyrnu.

Newcastle hélt þó út og fagnaði mikilvægum sigri. Lokatölur urðu því 4:3.

Einkunnir Sky Sports

Newcastle: Pope (5); Livramento (6), Schar (6), Burn (6), Hall (8); Willock (7), Guimaraes (7), Miley (7); Murphy (7), Isak (8), Gordon (6).

Varamenn: Tonali (6), Barnes (6), Wilson (n/a).

Svipmyndir frá mbl.is

Previous
Previous

Fjárfest til framtíðar

Next
Next

Forest kemur í heimsókn