Forest kemur í heimsókn

Newcastle United mun taka á móti Nottingham Forest á St James' Park á morgun. Um er að ræða mikilvægan leik þar sem bæði lið berjast um sæti í Evrópukeppnum. Leikurinn hefst klukkan 14:00.

Newcastle United situr nú í sjöunda sæti með 12 sigra, 5 jafntefli og 8 töp, samtals 41 stig eftir 25 umferðir. Newcastle er aðeins tveimur stigum á eftir Bournemouth, sem er í Evrópudeildarsæti, og þremur stigum á eftir Manchester City, sem er í síðasta Meistaradeildarsætinu. Gengi Newcastle hefur verið sveiflukennt undanfarið, með aðeins einn sigur í síðustu fjórum deildarleikjum.

Nottingham Forest hefur hins vegar verið eitt af óvæntu liðum tímabilsins. Liðið er í þriðja sæti með 47 stig. Þrátt fyrir góða stöðu hefur frammistaða þeirra verið óstöðug undanfarið, með tvö töp í síðustu tveimur útileikjum í deildinni, þar á meðal 5:0 tap gegn Bournemouth. Forest tapaði 2:1 á útivelli gegn Fulham í síðustu umferð.

Innbyrðis Viðureignir

Newcastle United og Nottingham Forest hafa mæst nokkuð oft í gegnum tíðina og leikir liðanna hafa oft verið hádramatískir með mörgum mörkum. Í síðustu 13 viðureignum hefur Newcastle unnið sjö sinnum, Forest fimm sinnum og einu sinni hafa liðin skilið jöfn. Að meðaltali hafa þessir leikir innihaldið 3,54 mörk á leik.

Síðasta viðureign liðanna var í nóvember á síðasta ári á City Ground, þar sem Newcastle sneri taflinu við og vann 3:1. Forest komst yfir með marki frá Murillo en Newcastle svaraði með mörkum frá Alexander Isak, Joelinton og Harvey Barnes.

Nokkrir punktar

  • Newcastle hefur tekið á móti Nottingham Forest sex sinnum í ensku úrvalsdeildinni á St James' Park og hrósað sigri fimm sinnum.

  • Newcastle hefur skorað í síðustu tíu heimaleikjum sínum gegn Forest.

  • Forest hefur hins vegar unnið tvo af síðustu þremur leikjum sínum á St James' Park í öllum keppnum, þar á meðal á síðustu leiktíð þegar Chris Wood gerði þrennu í 3:1 sigri í deildinni. Forest hafði þá betur gegn Newcastle, 3:2, í enska deildabikarnum árið 2017.

Forest-liðið

Leiktíðin hjá Nottingham Forest hefur verið ótrúlegt ferðalag þar sem liðið hefur færst frá því að vera í fallbaráttu í það að keppa um sæti í efstu fjórum sætunum, en Forest endaði í 17. sæti á síðustu leiktíð.

Nuno Espírito Santo er stjóri liðsins og hefur stýrt liðinu í rúmt ár. Nuno leggur áherslu á sterka vörn og hraðar skyndisóknir. Forest er oft með lága varnarlínu þar sem liðið verst þétt og brýst síðan hratt fram í skyndisóknir með hraða kantmenn eins og Anthony Elanga og Callum Hudson-Odoi. Þessi nálgun hefur reynst árangursrík. Chris Wood leiðir síðan sóknarlínuna og hefur farið á kostum.

Lykilmenn Forest

  • Chris Wood: Nýsjálenski framherjinn er kominn með 18 deildarmörk og gerði meðal annars þrennu í glæsilegum 7:0 stórsigri gegn Brighton fyrr í mánuðinum. Wood var keyptur til liðsins frá Newcastle fyrir tveimur árum.

  • Morgan Gibbs-White: Sem sóknarsinnaður miðjumaður hefur Gibbs-White verið lykilmaður í sóknarleiknum en hann hefur skorað 5 mörk og lagt upp jafnmörg.

  • Murillo: Brasilíski miðvörðurinn hefur styrkt vörnina til muna og var valinn leikmaður tímabilsins hjá Forest 2023-24. Hann hefur haldið uppteknum hætti á yfirstandandi tímabili.

  • Elliot Anderson: Öflugur miðjumaður sem skilar góðri varnarvinnu og er einnig mikilvægur í sóknarleiknum, með fimm stoðsendingar á leiktíðinni. Anderson kom til Forest frá Newcastle fyrir leiktíðina.

  • Matz Sels: Belgíski markvörðurinn hefur verið frábær í markinu hjá Forest. Sels hefur haldið markinu hreinu tíu sinnum á leiktíðinni og hefur nokkrum sinnum verið valinn maður leiksins. Sels lék á sínum tíma fyrir Newcastle í ensku B-deildinni leiktíðina 2016-17 en staldraði stutt við eftir að hafa misst sætið sitt í byrjunarliðinu.

Hápunktar liðsins

Leiktíðin hjá Forest hefur einkennst af eftirminnilegum sigrum, þar á meðal 3:2 sigri gegn Manchester United á Old Trafford í desember, sem var fyrsti sigur Forest þar síðan árið 1994. Forest er jafnframt eina liðið sem hefur hrósað sigri gegn toppliðinu Liverpool á leiktíðinni. Forest vann þá sex deildarleiki í röð fyrir ekki svo löngu síðan.

Liðsfréttir hjá Newcastle

Sven Botman og Joelinton eru báðir að jafna sig af meiðslum og verða líklega ekki með. Jamaal Lascelles verður áfram á meiðslalistanum en hann er byrjaður í léttum æfingum eftir erfið krossbandameiðsli.

Martin Dúbravka, sem skrifaði nýverið undir nýjan samning, verður líklega í rammanum og í vörninni fyrir framan hann verða líklega Valentino Livramento, Fabian Schar, Dan Burn og Lewis Hall. Kieran Trippier, sem var í byrjunarliðinu gegn Manchester City í síðustu umferð, verður því líklega á varamannabekknum eftir slaka frammistöðu gegn City.

Sandro Tonali, Bruno Guimaraes og Joe Willock verða líklega á miðjunni. Að lokum mun Alexander Isak leiða sóknarlínuna með Anthony Gordon og Jacob Murphy á köntunum.

Previous
Previous

Fjögur mörk á 11 mínútum

Next
Next

Dúbravka og Krafth framlengja