Kominn tími á sigur á Molineux

Newcastle United fer á morgun í heimsókn á Molineux-völlinn þar sem Wolves leikur sína heimaleiki. Newcastle United er taplaust eftir fyrstu fjóra leiki tímabilsins og liðið mun freista þess að vinna sinn annan leik í röð í deildinni eftir að hafa unnið góðan 2:1 heimasigur gegn Tottenham í byrjun mánaðar. Newcastle byrjaði tímabilið á 1:0 heimasigri gegn Southampton, gerði síðan 1:1 jafntefli við Bournemouth og sló Nottingham Forest út í enska deildarbikarnum í síðasta mánuði. 

Eddie Howe, stjóri Newcastle United, á enn eftir að sækja sigur á Molineux-vellinum í ensku úrvalsdeildinni en hann hefur tvisvar náð í jafntefli á vellinum síðan hann tók við Newcastle United. Þá tapaði hann í tvígang á vellinum þegar hann stýrði liði Bournemouth.

Síðasti sigur Newcastle United á Molineux-vellinum kom í febrúar árið 2017 þegar liðin mættust í ensku B-deildinni en síðan þá hafa liðin oftast gert jafntefli á Molineux í ensku úrvalsdeildinni. Newcastle United hefur hins vegar staðið sig vel gegn Wolves á heimavelli upp á síðkastið og unnið síðustu þrjá leikina þar.

Varnarmaðurinn Fabian Schar verður klár í slaginn á morgun en hann snýr til baka eftir að hafa verið í leikbanni. Bruno Guimaraes er þá einnig frískur og klár í slaginn eftir hafa leikið einungis fyrri hálfleikinn með brasilíska landsliðinu gegn Paragvæ fyrir þremur dögum. Callum Wilson, Emil Kraft, Lewis Miley og Joe Willock verða frá vegna meiðsla. Til viðbótar má nefna að þeir Sven Botman og Jamaal Lascelles verða frá í langan tíma og koma líklega ekki við sögu fyrr en á næsta ári.

Sandro Tonali verður líklega áfram á varamannabekknum en hann hefur verið að koma öflugur inn af bekknum og verður kominn í byrjunarliðið áður en langt um líður. 

Leikurinn á morgun hefst klukkan 15:30 og verður í beinni útsendingu á Síminn Sport en stuðningsmenn ætla að hittast á morgun og horfa á leikinn saman á Ölver í Glæsibæ. Hvetjum alla til að mæta þangað.

Hér að neðan má sjá líklegt byrjunarlið í leiknum.

Previous
Previous

Endurkomusigur Newcastle gegn Wolves

Next
Next

Fílalag fjallar um Local Hero