Fjárhagsstaðan hefur batnað
Darren Eales, framkvæmdastjóri Newcastle United, fyrir miðju.
Með batnandi fjárhag og auknum tekjum einbeitir Newcastle United sér að frekari uppbyggingu. Félagið stefnir á að styrkja leikmannahópinn, fylgja fjárhagsreglum úrvalsdeildarinnar og taka mikilvæga ákvörðun um framtíð St James’ Park.
Eigendaskipti Newcastle United í október árið 2021 gjörbreyttu fjárhagslegri stöðu félagsins, þegar Public Investment Fund (PIF) frá Sádi-Arabíu eignaðist allt að 80% hlut í félaginu. Þessi yfirtaka markaði upphaf nýs kafla í sögu Newcastle United með það að markmiði að styrkja liðið í öllum keppnum á Englandi og á alþjóðavísu.
Fjárhagsstaða félagsins hefur tekið jákvæðum breytingum á síðustu misserum. Félagið skilaði 11,1 milljóna punda tapi eftir skatt á fjárhagsárinu sem lauk 30. júní 2024, sem er mikill viðsnúningur frá fyrra ári þegar tapið nam 71,8 milljónum punda. Þetta má að stórum hluta rekja til 28% aukningar í tekjum, sem hækkuðu úr 250,3 milljónum punda í 320,3 milljónir punda. Þessi tekjuvöxtur tengist bæði þátttöku í Meistaradeild Evrópu og hagnaði í leikmannasölum.
Auk þess hafa viðskiptatekjur félagsins aukist verulega, úr 43,9 milljónum punda í 83,6 milljónir punda. Þessi vöxtur kemur m.a. til vegna samstarfssamninga við fyrirtæki eins og Sela, Noon, Fenwick, InPost og Adidas. Þá hafði heimildarmyndin We Are Newcastle United á Amazon Prime einnig jákvæð áhrif á tekjur félagsins.
Áhersla á að halda í lykilleikmenn
Darren Eales, framkvæmdastjóri Newcastle United, hefur ítrekað að félagið ætli sér ekki að selja lykilleikmenn eins og Alexander Isak, Sandro Tonali og Bruno Guimarães. „Við erum ekki í neinni stöðu þar sem við neyðumst til að selja lykilmenn — það væri galið að íhuga slíkt,“ sagði Eales nýverið. Eales staðfesti einnig að félagið hyggst hefja viðræður um nýjan samning við Isak í sumar, þar sem áhugi stórliða á leikmanninum fer vaxandi.
Eales undirstrikaði að eigendur félagsins væru enn jafn ákveðnir í að koma Newcastle United í fremstu röð. Eales var þó hikandi við að lofa miklum fjárhæðum í leikmannakaup eftir yfirstandandi leiktíð, til að forðast að önnur félög hækki verðmiðana á sínum leikmönnum.
Fjárhagslegar áskoranir og reglur úrvalsdeildarinnar
Þrátt fyrir öflugan fjárhagslegan bakhjarl þarf félagið að fylgja reglum ensku úrvalsdeildarinnar um hagnað og sjálfbærni (e. Profit and Sustainability Rules – PSR). Reglurnar heimila félögum að tapa allt að 105 milljónum punda á þriggja ára tímabili.
Eales hefur lýst yfir óánægju með þessar takmarkanir, þar sem þær hamla möguleikum félagsins til að vaxa eins hratt og eigendurnir vilja. Hann lagði áherslu á að félagið þyrfti að auka tekjur sínar til að mæta þessum skilyrðum og að stækkun á núverandi leikvangi eða nýr leikvangur gæti skipt sköpum í þeim efnum.
Eales útskýrði að félagið hafi þurft að stilla útgjöldum sínum í hóf til að forðast brot á PSR-fjárhagsreglunum, en nú sé nýtt tímabil að hefjast.
St James' Park: Stækkun eða nýr leikvangur?
Eigendur og stjórnarmenn félagsins standa frammi fyrir mikilvægu vali varðandi framtíð St James' Park-leikvangsins. Núverandi leikvangur tekur rúmlega 52.000 áhorfendur en með ört stækkandi stuðningsmannahópi og aukinni velgengni er talin þörf á stærri leikvangi. Tveir valkostir eru sagðir vera til skoðunar:
Stækkun St James’ Park – Hugmynd er uppi um að fjölga sætum á núverandi leikvangi, þannig að hann muni í framtíðinni rúma um 60 þúsund áhorfendur. Ýmsar áskoranir eru þó til staðar, m.a. vegna nálægðar við neðanjarðarlestarstöð og friðlýst mannvirki. Áætlaður kostnaður við framkvæmdina gæti orðið allt að 800 milljónir punda og gæti tekið fimm ár.
Bygging nýs leikvangs – Annar möguleiki er að byggja nýjan leikvang í Leazes Park sem gæti rúmað um 70 þúsund áhorfendur. Þetta verkefni gæti tekið allt að sjö ár og kostað um 1,6 milljarða punda. Nýr leikvangur gæti tvöfaldað tekjur af leikdögum, en nokkrar áskoranir eru til staðar, þ. á m. umhverfisverndarsjónarmið og skipulagsleyfi.
Nýjustu fregnir benda til þess að stjórn félagsins hallist frekar að því að byggja nýjan leikvang. Kynnt hefur verið áætlun fyrir Yasir Al-Rumayyan, stjórnarformann PIF, um fjölnota íþróttamannvirki sem yrði næststærsti félagsvöllur Englands. Endanleg ákvörðun verður tekin eftir ítarlegt mat og samráð við hagsmunaaðila.
Uppbygging á æfingasvæði
Þá er unnið að því að bæta æfingaaðstöðu liðsins til að laða að efnilega leikmenn og bæta undirbúning liðsins. Þrátt fyrir að félagið hafi þegar fjárfest í núverandi æfingasvæði sínu í Darsley Park, er ljóst að þörf er á nútímalegri aðstöðu. Félagið vinnur nú að því að ákveða hvaða staðsetning sé best til framtíðar.