Bruno með sigurmarkið gegn West Ham
Newcastle United náði að komast aftur í sjötta sætið með því að sigra West Ham United á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í kvöld, 1:0. Það var fyrirliðinn Bruno Guimarães sem skoraði sigurmarkið og tryggði dýrmætan sigur í baráttunni um Meistaradeildarsæti.
Byrjunarlið Newcastle (4-3-3):
Pope – Trippier, Schär, Burn, Livramento – Bruno, Tonali, Joelinton – Murphy, Isak, Barnes.
Varamenn: Dubravka, Targett, Willock, Krafth, Wilson, Neave, Longstaff, Osula, Miley.
Þetta var verðskuldaður sigur fyrir liðið, sem var kannski ekki á sínum besta degi sóknarlega en sýndi þó aga og baráttu til að halda aftur af liði Graham Potter sem hefur verið á uppleið.
Newcastle slapp með skrekkinn strax á fyrstu mínútu leiksins þegar Tino Livramento missti af hreinsun og boltinn fór til Tomáš Souček sem skaut yfir af stuttu færi.
Newcastle-liðið batnaði þó eftir það og var í tvígang nálægt því að komast yfir í fyrri hálfleiknum með færum frá Harvey Barnes. Barnes átti fyrst skot eftir fyrirgjöf frá Kieran Trippier en Areola var fljótur að verja. Síðan átti Barnes skalla sem Areola varði einnig vel. Barnes kom inn í byrjunarliðið í fjarveru Anthony Gordon sem tekur út leikbann. Þá lék Livramento í stöðu vinstri bakvarðar í leiknum í fjarveru Lewis Hall sem verður frá út leiktíðina vegna meiðsla.
Markvörður West Ham, Alphonse Areola, varði frábærlega eftir rúmlega klukkutíma leik og kom í veg fyrir sjálfsmark frá Max Kilman.
Aðeins nokkrum mínútum síðar skoraði Newcastle þegar Guimarães kom boltanum í netið eftir fyirgjöf frá Barnes. Brasilíumaðurinn kom sér á fjærstöngina og kom Newcastle í forystu, sem vakti mikinn fögnuð meðal stuðningsmanna liðsins fyrir aftan markið. Það var verðskuldað eftir betri frammistöðu í seinni hálfleiknum.
Guimarães slapp við vítaspyrnudóm seint í leiknum þegar hann ýtti við Bowen í vítateignum. West Ham reyndi síðan að setja meiri pressu í lokin en Newcastle-liðið hélt haus og tókst að halda út með afar dýrmætum sigri.
Góð byrjun á viku sem gæti orðið söguleg í London næsta sunnudag þegar Newcastle leikur við Liverpool í úrslitaleik enska deildabikarsins.